Flaug vísvitandi í áætlunarflugi með berklasmit

Bandarískur karlmaður, sem er í einangrun í Atlanta í Bandaríkjunum eftir að hann greindist með skæða berkla sem eru ónæmir fyrir lyfjum (XDR TB) vissi að hann ætti ekki að fljúga með áætlunarflugi en gerði það samt. Endanlegar niðurstöður rannsókna lágu ekki fyrir er hann fór til Evrópu í brúðkaupsferð. Þegar niðurstöður bárust var hann á Ítalíu og var hann þá beðinn um að gefa sig fram við yfirvöld þar. Hann yfirgaf hins vegar Ítalíu, fór til Prag og flaug þaðan til Kanada þaðan sem hann ók til Bandaríkjanna.

Dr. Julie Gerberding, yfirmaður bandarísku sóttvarnastofnunarinnar Centers for Disease Control and Prevention, segir lækna hafa sagt manninum áður en hann fór að heiman að hann ætti ekki að fljúga með áætlunarflugi þar sem hann gæti smitað aðra farþega og að þeir hafi treyst því að hann færi að tilmælum þeirra til að koma í veg fyrir að smitið breiddist út. Maðurinn segir hins vegar að áður en hann lagði upp í ferðina hafi honum einungis verið sagt að hann ætti helst ekki að fljúga.

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum vinna nú að því að hafa uppi á fólki sem sat nálægt manninum í flugvélunum til að ganga úr skugga um að það hafi ekki smitast. Maðurinn er hins vegar í einangrun og er hann fyrsti einstaklingurinn sem bandarísk yfirvöld úrskurða í einangrun í fjörutíu ár.

Maðurinn flaug frá Atlanta til Parísar með flugi Air France Flight 385 þann 12. maí og frá Prag til Montreal í Kanada með flugi Czech Air Flight 0104 síðastliðinn fimmtudag. Þaðan ók hann síðan til Bandaríkjanna. Maðurinn hefur staðfest að hann hafi flogið til Kanada þar sem hann hafi vitað að hann væri á bannlista yfir flugfarþega til Bandaríkjanna. Þá segist hann hafi valið þann kost þar sem hann hafi ekki treyst því að hann fengi viðunandi læknismeðferð á Ítalíu og bandarísk heilbrigðisyfirvöld hafi tjáð honum að þau gætu ekki komið honum heim.

Gerberding segir hins vegar að unnið hafi verið að því að koma honum heim. Það hafi hins vegar tafist um nokkra daga vegna frídaga og að þegar ákvörððun hafi legið fyrir um að senda einkaflugvél eftir manninum hafi ekki náðst í hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert