Talsmaður Kate og Gerry McCann hefur vísað vangaveltum um að hjónin hafi grafið lík dóttur sinnar Madeleine á Spáni en fjölmiðlar í Portúgal halda því fram í dag að lögregla í Portúgal telji hjónin hafa notað ferð sem þau fóru þangað til að kynna leitina að Madeleine, til að losa sig við lík hennar. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Samkvæmt heimildum portúgalskra fjölmiðla beinir portúgalska lögreglan nú rannsókn sinni að tveimur tímum í umræddri Spánarferð, þann 3. ágúst, þar sem ekki mun liggja fyrir hvað þau gerðu í tvo tíma á leið í bæinn Huelva, þann dag. Hjónin höfðu deginum áður frestað fyrirhugaðri ferð til Huelva og voru lengur á leiðinni þangað en ráð var fyrir gert. Segjast hjónin hafa stoppað við bensínstöð til að sýna vegfarendum myndir af Madeleine.
Clarence Mitchell, talsmaður hjónanna, segir kenninguna algerlega fáránlega. Þá segir hann það vera stefnu hjónanna að tjá sig ekki um fáránlegar tilgátur en að hann vilji þó taka fram að fyrir liggi hvað þau gerðu á hvaða tíma sem er frá hvarfi Madeleine þann 3. maí.