Hamstrar á viagra og hommasprengjur

Argentínskir vísindamenn, sem uppgötvuðu að stinningarlyfið Viagra hjálpar hömstrum að sigrast á þotuþreytu, og japanskur vísindamaður, sem fann upp aðferð til að vinna vanillu úr kúamykju, hafa verið sæmdir svonefndum Ig Nóbelsverðlaunum.

Verðlaunin voru afhent í sautjánda skipti við Harvard-háskóla í Massachusetts í fyrrakvöld. Eru þetta háðungarverðlaun sem afhent eru árlega áður en Nóbelsverðlaunin eru veitt.

Markmiðið er að vekja athygli á furðulegum rannsóknum og uppfinningum vísindamanna, eða vísindaafrekum sem "fá fólk fyrst til að hlæja en vekja það síðan til umhugsunar", að sögn Marc Abrahams, ritsjóra tímaritsins Annals of Improbable Research, sem veitir verðlaunin.

Friðarverðlaun Ig Nóbelsins voru veitt fyrir rannsóknir á svonefndri "hommasprengju", sem á að fá óvinahermenn til að líta félaga sína hýru auga og brenna af holdlegri girnd. Enginn tók við verðlaununum og siðgæðisvörður verðlaunaafhendingarinnar skarst í leikinn þegar kynnirinn sagði að sprengjan yrði sprengd í tilraunaskyni.

Einnig voru veitt verðlaun fyrir rannsóknir á aukaverkunum sverðagleypinga. Þá voru rannsóknarmenn á Spáni verðlaunaðir fyrir að svara þeirri spurningu hvort rottur gætu gert greinarmun á japönsku og hollensku þegar talað er afturábak.

Sjö af tíu verðlaunahöfum tóku á móti verðlaununum að þessu sinni og sex Nóbelsverðlaunahafar afhentu verðlaunagripina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert