Bandaríski herinn undirbýr sig nú undir að finna nýjar leiðir til að ferja vistir, eldsneyti og mannskap til Afganistan. Talsmaður bandaríska hermálaráðuneytisins í Pentagon sagði að ef óróleikinn í Pakistan muni aukast þurfi að grípa til annarra ráðstafana en fram að þessu hefur pólitískur óróleiki í landinu ekki haft áhrif á birgðaflutninga um landið.
Geoff Morrell, talsmaður Pentagon sagðist ekki hafa áhyggjur af kjarnorkuvopnaforðanum í Pakistan. „Við teljum að þau séu undir góðri stjórn,” sagði hann á blaðamannafundi í dag.
Menn hafa hins vegar áhyggjur af birgðaflutningunum til Afganistan því um 75% þeirra er flogið til Pakistans.
Morell gaf ekki upp hvaða aðrar leiðir kæmu til greina en næsti flugvöllur undir stjórn Bandaríkjahers er herflugvöllur í Kyrgystan.