Fórnarlamb hópnauðgunar dæmt til refsingar

Nítján ára gömul stúlka í Sádi-Arabíu, sem varð fórnarlamb hópnauðgunar, hefur verið dæmd til að þola 200 svipuhögg og sex mánaða fangelsisvist þar sem hún braut lög sem banna samskipti við ókunnuga karlmenn. Stúlkan var í bíl með manni, sér ótengdum, þegar ráðist var á hana.

Konan var upphaflega dæmd til að þola 90 svipuhögg. Hún áfrýjaði en áfrýjunardómstóll þyngdi dóminn og sagði m.a. að stúlkan hefði reynt að nýta sér fjölmiðla til að hafa áhrif á dómsniðurstöðuna. Lögmanni stúlkunnar var einnig refsað en hann var sviptur lögmannsréttindum.

Dómstóllinn þyngdi einnig dóma, sem árásarmennirnir, sem voru sjö, hlutu. Þeir voru upphaflega dæmdir í 1-5 ára fangelsi en áfrýjunardómstóllinn tvöfaldaði lengd dómanna.

Fréttavefur BBC hefur eftir blaðinu Arab News, að konan, sem er sjía-múslimi, hafi verið nauðgað 14 sinnum fyrir einu og hálfu ári. Sjö menn úr hópi súnní-múslima voru fundnir sekir um árásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert