Stúlka fyrirfór sér eftir að hafa verið göbbuð á netinu

MySpace er eitt vinsælasta vefsvæði heims.
MySpace er eitt vinsælasta vefsvæði heims.

Þrettán ára bandarísk stúlka, Megan Meier, sem þjáðist af þunglyndi og athyglisbresti, framdi sjálfsmorð eftir að strákur sem hún taldi sig hafa kynnst á netinu batt skyndilega endi á samskipti þeirra. Fjölskylda stúlkunnar komst síðar að því að strákurinn var í rauninni ekki til og að um gabb var að ræða.

Foreldrar stúlkunnar reyna nú að höfða skaðabótamál á hendur nágrönnum sínum sem stóðu að gabbinu.

Megan hafði skipst á skilaboðum við "Josh" í um mánuð á samskiptavefnum MySpace þegar hann batt skyndilega endi á samskiptin með þeim orðum, að sér hefði verið sagt að hún væri vond.

Daginn eftir svipti Megan sig lífi. Fjölskylda hennar komst síðar að því að meðlimir fjölskyldu í sama hverfi, þ.á m. fyrrverandi vinur Megan, höfðu búið til síðu undir nafninu "Josh" á MySpace.

Móðir Megan, Tina, segist ekki halda að neinn þeirra sem stóðu að gabbinu hafi vænst þess að Megan myndi fyrirfara sér.

"En þegar fullorðið fólk tekur þátt í að plata 13 ára barn, hvort sem það á við andlega erfiðleika að etja eða ekki, er um hreina mannvonsku að ræða," sagði Tina við dagblað í St.Louis, sem fyrst greindi frá málinu.

Tina sagði ennfremur að saksóknari hefði tjáð sér að engin lög næðu yfir þetta mál, en það væri þó ekki talið upplýst og ef ný gögn kæmu fram í dagsljósið yrði málið tekið upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka