Ítalinn Roberto Benigni varð í nótt fyrstur til að vinna Óskarsverðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki í kvikmynd sem ekki er leikin á ensku. Mynd hans, Lífið er fagurt var einnig valin besta erlenda myndin. Gwyneth Paltrow var valin besta leikkonan í aðalhlutverki fyrir myndina Ástfanginn Shakespeare. Steven Spielberg var valinn besti leikstjórinn og Ástfanginn Shakespeare besta myndin en sú mynd fékk 7 verðlaun, þar á meðal fyrir besta frumsamda handritið.
Judi Dench var valin besta leikkona í aukahlutverki í sömu mynd og James Coburn var valinn besti karlleikarinn í aukahlutverki fyrir leik í myndinni Affliction. Umdeildustu verðlaunin voru sérstök heiðursverðlaun sem The Elia Kazan hlaut. Kazan sakaði nokkra listamenn í Hollywood um kommúnisma á tímum kommúnistaveiðanna á sjötta áratugnum og margir hafa ekki gleymt því enn. Þegar leikstjórinn Martin Scorsese og leikarinn Robert De Niro. afhentu Kazan heiðursóskarinn sátu sumir áhorfendur, þar á meðal leikararnir Nick Nolte og Ed Harris, sem fastast í stólum sínum meðan aðrir hylltu leikstjórann. Kazan, sem er 89 ára, leikstýrði m.a. myndunum On the Waterfront og East of Eden.