Merki um aukin samskipti þjóðanna

mbl.is/Kristinn

Keizo Obuchi, forsætisráðherra Japans, og Chizuko Obuchi, eiginkona hans, komu ásamt fjölmennu fylgdarliði til Íslands í gærkvöldi. Boeing 747-400 þota japanska ríkisins lenti á Keflavíkurflugvelli á áttunda tímanum í gærkvöldi. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra tók á móti japönsku forsætisráðherrahjónunum fyrir hönd íslenska ríkisins.

Sadaaki Numata, yfirmaður fjölmiðla- og almannatengsla japanska utanríkisráðuneytisins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að unnið yrði að því að efla samskipti Japans og Íslands með ýmsu móti. "Við ætlum að stofna japanska upplýsingaskrifstofu hér í Reykjavík á þessu ári. Ég vona að hún verði mikilvægur grundvöllur fyrir miðlun hvers kyns upplýsinga um Japan hér á landi. Við teljum að þessi nýmæli og heimsókn Obuchis séu leiðir til að efla samskiptin enn frekar og við fögnum ennfremur stofnun íslensks sendiráðs í Tókýó. Allt eru þetta jákvæðir atburðir og merki um aukin samskipti þjóðanna tveggja," sagði hann.  Davíð Oddsson forsætisráðherra mun eiga fund með Keizo Obuchi í Höfða kl. 9 í dag. Davíð sagði í gær að hann myndi einkum ræða við Obuchi um viðskipti landanna og gagnkvæm sendiherraskipti en stefnt er að því að opnað verði íslenskt sendiráð í Japan árið 2001.

Önnur breiðþota höfð til vara á Keflavíkurflugvelli

 Á annað hundrað embættismenn og háttsettir menn úr japönsku þjóðlífi, auk um 40 japanskra fjölmiðlamanna, komu einnig með þotu japanska forsætisráðherrans í gær. Alls fylgja um 220 manns Keizo Obuchi hingað til lands en fyrir nokkru komu fjórir tugir japanskra starfsmanna til Íslands vegna heimsóknarinnar.  Mikill viðbúnaður var í kringum komu forsætisráðherrahjónanna sem héldu strax að lokinni móttökuathöfn á Keflavíkurflugvelli að Hótel Loftleiðum. Þar sátu þau kvöldverð með japönsku fjölmiðlafólki. Í gærkvöldi kom svo önnur Boeing 747-400 þota til Keflavíkur á vegum japanska ríkisins en hún er höfð til vara fyrir japönsku forsætisráðherrahjónin.

Ræðir við forsætisráðherra Norðurlandanna

 Í framhaldi af fundi Obuchis og Davíðs í dag mun japanski forsætisráðherrann eiga fund með forsætisráðherrum Norðurlandanna, sem staddir eru hér á landi. Að því búnu verður efnt til fréttamannafundar. Japönsku forsætisráðherrahjónin, forsætisráðherrar Norðurlandanna og eiginkonur þeirra munu svo snæða hádegisverð á Bessastöðum í boði Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Lítum á Norðurlönd/34/35
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert