Keizo Obuchi, forsætisráðherra Japans, og Chizuko Obuchi, eiginkona hans, komu ásamt fjölmennu fylgdarliði til Íslands í gærkvöldi. Boeing 747-400 þota japanska ríkisins lenti á Keflavíkurflugvelli á áttunda tímanum í gærkvöldi. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra tók á móti japönsku forsætisráðherrahjónunum fyrir hönd íslenska ríkisins.
Sadaaki Numata, yfirmaður fjölmiðla- og almannatengsla japanska utanríkisráðuneytisins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að unnið yrði að því að efla samskipti Japans og Íslands með ýmsu móti. "Við ætlum að stofna japanska upplýsingaskrifstofu hér í Reykjavík á þessu ári. Ég vona að hún verði mikilvægur grundvöllur fyrir miðlun hvers kyns upplýsinga um Japan hér á landi. Við teljum að þessi nýmæli og heimsókn Obuchis séu leiðir til að efla samskiptin enn frekar og við fögnum ennfremur stofnun íslensks sendiráðs í Tókýó. Allt eru þetta jákvæðir atburðir og merki um aukin samskipti þjóðanna tveggja," sagði hann. Davíð Oddsson forsætisráðherra mun eiga fund með Keizo Obuchi í Höfða kl. 9 í dag. Davíð sagði í gær að hann myndi einkum ræða við Obuchi um viðskipti landanna og gagnkvæm sendiherraskipti en stefnt er að því að opnað verði íslenskt sendiráð í Japan árið 2001.