Sjónvarpsstöðvar segja að George W. Bush hafi unnið forsetakjörið

CNN telur George W. Bush vera næsta forseta Bandaríkjanna.
CNN telur George W. Bush vera næsta forseta Bandaríkjanna. AP

Bandarískar sjónvarpsstöðvar segja nú að George W. Bush forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins hafi unnið sigur í Flórída, sem færir honum þá 25 kjörmenn sem hann vantaði til að fara með sigur af hólmi í forsetakosningunum. Samkvæmt því hefur Bush fengið 271 kjörmann en þurfti að lágmarki 270 kjörmenn til að tryggja sér sigur í kosningunum. Bush verður 43. forseti Bandaríkjanna og er þetta í annað skipti í sögunni sem sonur fyrrverandi forseta er kjörinn í embættið.

Þúsundir stuðningsmanna Bush höfðu safnast saman utan við ríkisstjórabústaðinn í Austin í Texas þar sem Bush og fjölskylda hans fylgdust með talningu atkvæðanna. Þegar sjónvarpsstöðvarnar tilkynntu úrslitin ærðist mannfjöldinn af fögnuði. Enn er verið að telja atkvæði í Flórída en þegar búið var að telja 97% um klukkan 19 að íslenskum tíma nam forskot Bush um 50 þúsund atkvæðum af um 5 milljón atkvæðum sem greidd voru í ríkinu.Þá liggja ekki fyrir úrslit í Oregon og Wisconsin en þar eru samtals 18 kjörmmenn. Hins vegar liggur fyrir að hvernig sem þar fer verður munurinn á kjörmönnum frambjóðendanna sá minnsti frá Woodrow Wilson var endurkjörinn forseti árið 1916 með 23 kjörmanna mun. Vinni Gore sigur í Oregon og Wisconsin verður munurinn á frambjóðendunum sá minnsti í kjörmönnum talið frá því Rutherford Hayes vann Samuel Tilden árið 1876 með eins kjörmanns mun. Þá gæti munurinn á heildaratkvæðum orðið sá minnsti frá því John F. Kennedy sigraði Richard Nixon árið 1960 með 49,7% atkvæða gegn 49,6%. Búið er að telja 87% atkvæða á landsvísu og þar hefur Bush hlotið 49% en Gore 48%. Sjónvarpsstöðvar höfðu í nótt klukkan 1 lýst Gore sigurvegara í Flórída og byggðu það á útgönguspám og upplýsingum frá kjörstöðum. Í ljós kom hins vegar að upplýsingarnar voru ekki nákvæmar og að auki var kjörstöðum vestast í ríkinu ekki lokað fyrr en klukkutíma síðar þar sem þar er miðað við miðríkjatíma. Laust eftir klukkan þrjú í nótt drógu flestar sjónvarpsstöðvarnar spá sína um Flórída til baka og gáfu ekki út nýja fyrr en á áttunda tímanum í dag.Framboð Græningjans Ralphs Naders hafði óumdeilanlega áhrif á kosningarnar þrátt fyrir að hann næði ekki því markmiði að fá 5% atkvæða á landsvísu. Í Flórída fékk Nader 94 þúsund atkvæði og er talið að hann hafi einkum sótt fylgi sitt til demókrata. Bush vann sigur bæði í Tennessee, heimaríki Gores, og Arkasas, heimaríki Bills Clintons forseta. Gore vann þó sigur í tveimur mikilvægum ríkjum: Pennsylavníu þar sem hann fékk 23 kjörmenn, og Michigan, 18 kjörmenn. Þá vann hann einnig sigur í Kalíforníu og fékk 54 kjörmenn að launum. Hillary Rodham Clinton forsetafrú vann öruggan sigur á Rick Lazio í kosningu um sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir New York ríki
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert