Gore óskar Bush til hamingju

Stuðningsmenn Bush hrópa af gleði utan við ríkisstjórabústaðinn í Austin …
Stuðningsmenn Bush hrópa af gleði utan við ríkisstjórabústaðinn í Austin þegar sjónvarpsstöðvar lýsa Bush sigurvegara. AP

Varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi demókrata, Al Gore, hringdi í morgun í ríkisstjórann og repúblikanann George W. Bush og óska honum til hamingju með sigurinn í forsetakosningunum að því er sjónvarpsstöðin CNN skýrir frá. Búist er við því að Gore ávarpi stuðningsmenn sína innan skamms og viðurkenni ósigur sinn í forsetakosningunum.

Þótt úrslit hafi ekki verið tilkynnt formlega hafa leiðtogar erlendra ríkja þegar tjáð sig um sigur Bush. Þannig gaf talsmaður Abdurrahman Wahids forseta Indónesíu út yfirlýsingu um að forsetinn fagnaði sigri Bush og myndi bráðlega senda honum heillaóskaskeyti. Talsmaðurinn hafði eftir Wahid að Bush yrði Indónesum væntanlega hliðhollari en núverandi stjórnvöld í Washington. Tengls Bandaríkjanna og Indónesíu hafa versnað verulega vegna deilna nokkurra indónesískra ráðherra og Roberts Gelbards sendiherra Bandaríkjanna í Jakarta. Þá sagði Jaswant Singh utanríkisráðherra Indverja að hann teldi ekki að nein breyting yrði á samskiptum landanna tveggja eftir að Bush tæki við forsetaembættinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert