Hvetjandi ummæli Colins Powells, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um notkun smokksins til að hefta útbreiðslu eyðni, hafa orðið til þess að vekja reiði íhaldssamra stuðningsmanna stjórnar George W. Bush Bandaríkjaforseta. Stuðningsmennirnir segja ummælin ganga þvert á stefnu stjórnar Bush, að því er segir í frétt Reuters.
Powell svaraði spurningum á sjónvarpsstöðin MTV en spyrjendurnir voru staddir víðs vegar í heiminum og báru fram spurningar sínar fyrir milligöngu gervihnattar. Powell sagði áhorfendum að hann teldi að smokkar væru liður í lausn á eyðni-vandanum og hvatti ungt fólk sem stundar kynlíf, til að nota smokka. „Að mínu mati er notkun smokka leið til að koma í veg fyrir smit og þess vegna styð ég ekki aðeins notkun þeirra heldur hvet til hennar," sagði Powell þegar hann svaraði spurningu frá ungum Ítala. Powell bætti við: „Gleymið boðum og bönnum, gleymið íhaldssömum hugmyndum. Líf ungs fólks er í hættu vegna óöruggs kynlífs og þess vegna eigið við að vernda ykkur." Stjórn Bush hefur ekki tekið afstöðu gegn smokkum en Hvíta húsið hvetur til þess að ungt fólk forðist kynlíf og þannig kynsjúkdóma. Til að draga úr fjölda unglingsstúlkna sem verða barnshafandi hvetur stjórnin til þess að unglingar forðist kynlíf.