Hópur Bandaríkjamanna vel yfir kjörþyngd hefur höfðað mál gegn nokkrum skyndibitakeðjum þar sem þær eru ásakaðar um að selja viljandi mat sem veldur offitu og sjúkdómum. Málið var höfðað fyrir héraðsdómi í Bronx í New York og segir að McDonald´s, Burger King, Wendy´s og Kentucky Fried Chicken hafi afvegaleitt viðskiptavini sína með því að lokka þá að með fitugum, söltum og sykruðum mat.
„Skyndibitakeðjurnar hafa eyðilagt líf mitt," sagði Ceasar Barbar, einn þeirra sem höfða málið, í samtali við bandaríska dagblaðið New York Post. Barbar, sem er 57 ára og 125 kg að þyngd, borðaði reglulega á skyndibitastöðum þar til árið 1996, þegar læknir varaði hann við að mataræði hans gæti dregið hann til dauða. Barbar hefur nú þegar fengið tvö hjartaáföll og þjáist af sykursýki. „Ég hélt alltaf að þetta væri hollt fyrir mann. Ég hélt aldrei að það væri neitt að þessu," sagði hann. Samkvæmt nýrri könnun á offitu í Bandaríkjunum er meira en helmingur allra fullorðinna Bandaríkjamanna of þungur. Um 54 milljónir manna voru of þungar, þ.e. 15 kg eða meira yfir kjörþyngd. Baráttuhópar fyrir bættri heilsu segja að ruslmatur sé einna stærsta orsök þessa sívaxandi heilbrigðisvandamáls. Talsmaður fyrir samtök veitingastaða gaf lítið fyrir lögsóknina. „Hann hlýtur að vita að tveggja þriðju alls matar sem Bandaríkjamenn borða er neytt á heimilum landsmanna. Er hann að leggja til að við lögsækjum mæður í landinu?" sagði talsmaðurinn, John Doyle, í samtali við fréttastofu ABC.