Gert er ráð fyrir að dómarar í Danmörku ákveði í dag eða á morgun hvort grundvöllur sé til að fangelsa tvo menn sem grunaðir eru um að hafa myrt dæmdan barnaníðing í borginni Middelfart sl. laugardag, að sögn Berlingske Tidende.
Hinn myrti, Villy G. Andersen, var 63 ára gamall. Hann var á ferð í bíl sínum í grennd við markað í bænum rétt við endann á brúnni yfir Litlabelti skömmu fyrir hádegi á laugardag með eiginkonu sinni. Hún sat við hliðina á honum í rauðum Passat-skutbíl þeirra. Skotið var á hann úr hvítum sendibíl sem ók upp að hlið bílsins og hitti eitt skotanna hann í höfuðið. Konan sá ekki mennina og gat því ekki lýst þeim en mörg vitni voru yfirheyrð og sáu nokkur þeirra sendibílinn aka hratt af vettvangi. Á honum var skilti með áletruninni "Útleiga".
Í fyrstu var ekki útilokað að um voðaskot úr léttum riffli hefði verið að ræða. Lögreglan hefur nú lagt fram ýmsar vísbendingar um sekt mannanna tveggja sem eru 53 og 63 ára gamlir og frá borginni Kolding. Er talið að ástæðan geti verið að hinn myrti hafi leitað á níu ára gamla dóttur annars mannsins. Andersen hafði hlotið dóm fyrir kynferðislega misnotkun á börnum.