Opið fyrir erlenda fjárfesta

Guðjón Axel Guðjónsson.
Guðjón Axel Guðjónsson. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar Íslendingar gerðust aðilar að EES-samningnum 1994 voru ákveðnir málaflokkar undanskildir, þ. á m. sjávarútvegurinn. Orkumálin og auðlindirnar voru þar hins vegar ekki undanskilin," segir Guðjón Axel Guðjónsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneytinu.

„Það er í sjálfu sér opið fyrir alla EES-borgara, einstaklinga eða lögaðila, að taka þátt í orkuvinnslu á Íslandi, þetta á við um borgara Evrópusambandsríkjanna 27 sem og Liechtensteins og Noregs."

Spurður um rétt erlendra aðila til kaupa á vatns- og jarðhitaréttindum á Íslandi segir Hreinn Hrafnkelsson að þar sem þessi réttindi fylgi landareign við kaup markist réttarstaðan af reglum um eignarhald erlendra aðila á landareignum.

Undanþága þegar til staðar

„Í gegnum EES samninginn hafa borgarar EES ríkjanna 29 rúmar heimildir til kaupa og hagnýtingar á fasteignum, þ.m.t. talið landi."

– Er útlendingum því heimilt að kaupa landsvæði þar sem er að finna grunnvatn, hefja þar vatnsvinnslu og flytja svo vatnið út?

„Nýtingarleyfi á grunnvatni myndi takmarka það líkt og í tilfelli Íslendinga. Það þyrfti að uppfylla skilyrði varðandi vatnsnýtinguna og átöppun vatns í einhvers konar neytendaumbúðir. Við fáum hins vegar ekki séð að það væri hægt að bregða fæti fyrir EES-borgara í því efni, hvort sem það eru einstaklingar eða lögaðilar. Aðilar utan ESB geta fjárfest hér á landi í gegnum lögaðila í Evrópu."

Aðspurðir um aðrar auðlindir, einkum eðalmálma í jörðu, sem eru hverfandi hér á landi, og skóga, sem einnig eru takmörkuð auðlind, enn sem komið er, segja þeir Guðjón og Hreinn að það sama gildi, lögaðilar á sama svæði geti tryggt sér eignarétt yfir þeim auðlindum hér. Hvað snerti mögulega olíuvinnslu á Drekasvæðinu sé skýrt að olían yrði ávallt í eigu íslensku ríkisins.

Hreinn vísar til vatnalaganna frá 1923 sem nái til yfirborðsvatns og laganna um auðlindir í jörðu frá 1998, sem nái til grunnvatns.

„Þar er kveðið skýrt á um að grunnvatn sem finnst undir landareign fylgi fasteigninni. Þegar við gerðumst aðilar að EES var opnað fyrir að einstaklingar eða fyrirtæki á EES-svæðinu gætu keypt þessar eignir. Rétt er þó að taka fram að með lagabreytingu vorið 2008 var kveðið skýrt á um að óheimilt sé að framselja orkuauðlindir í opinberri eigu. Nær það framsalsbann jafnt til innlendra og erlendra aðila," segir Hreinn Hrafnkelsson.

mbl.is