Vörn verður snúið í sókn

Hanna Birna ræðir við fundargesti í Valhöll í dag.
Hanna Birna ræðir við fundargesti í Valhöll í dag. mbl.is/GSH

Hanna Birna Kristjánsdóttir, nýr oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, sagði á opnum fundi í Valhöll í dag, að sjálfstæðismenn horfist í augu við að hlutirnir hafi ekki gengið nægilega vel í borgarstjórn. Þeir tímar væru vonandi að baki og nú yrði vörn snúið í sókn.

Hanna Birna fór á fundinum yfir atburði síðustu helgar þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson lagði til að Hanna Birna tæki við af honum sem oddviti og yrði borgarstjóri þegar sjálfstæðismenn taka við því embætti á næsta ári.

Hanna Birna sagði að vikan sem er að líða hefði verið viðburðarík í hennar lífi en svo virtist sem allar vikur í borgarstjórn Reykjavíkur væru sérkennilegar og langar. „Ég vona að slíkum vikum fari að fækka, svo viðburðaríkar sem þær hafa verið," sagði Hanna Birna. 

Öll lögmál stjórnmála brotin 

Hanna Birna sagði að flest lögmál stjórnmálanna hefðu verið brotin á fyrri hluta kjörtímabilsins í Reykjavík og umrótið verið mikið. Engin einhlít skýring væri á þessari atburðarás. Þar kæmu þó því miður við sögu skortur á samráði og upplýsingum, of mikill hraði og of lítill tími fyrir lýðræðið sjálft. „Af því þurfum við stjórnmálamenn að læra," sagði Hanna Birna.

Hún sagði, að það sem hefði reynst sjálfstæðismönnum í borgarstjórn sárast að meðtaka væri gagnrýni frá trúnaðarmönnum Sjálfstæðisflokksins. Það væri hluti af stjórnmálastarfi að sæta gagnrýni og jafnvel andúð frá pólitískum andstæðingum en þegar skilaboð um vonbrigði og skort á trausti bærust frá eigin stuðningsmönnum yrði róðurinn bæði þungur og sár.

„Ég heiti því að leggja mig alla fram við að mæta vonum og væntingum sjálfstæðismanna og ég mun leggja mig alla fram til að tryggja flokknum okkar þá stöðu sem hann á að hafa, og endurvinna það traust, sem kannanir sýna að við höfum glatað," sagði Hanna Birna, sem fékk afar hlýjar móttökur fundargesta.

Samstarf afar gott

Hanna Birna lagði áherslu á þann árangur, sem náðst hefði í borgarstjórn á kjörtímabilinu undir forustu sjálfstæðismanna. Hún sagði að núverandi samstarf flokksins við F-listann væri afar gott. Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, væri heiðarlegur og vandaður maður sem hefði það eina markmið að vinna að heill og velferð borgarbúa. Andstæðingar meirihlutans hefðu vegið ómaklega að Ólafi.

Þá sagði hún að Tjarnarkvartettinn svonefndi, meirihluti fjögurra flokka á síðasta ári, hefði aðeins getað leikið stuttan lagstúf með miklum tilþrifum í upphafi en síðan hefði komið í ljós að nóturnar voru aldrei þær sömu og stjórnandinn, Dagur B. Eggertsson, verið upptekinn af því að veifa sprotanum.

Hér sjá upptöku af fundinum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær