„Atlaga“ felldi íslenska kerfið

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri, utan …
Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri, utan við Ráðherrabústaðinn skömmu fyrir fall bankanna. mbl.is/Brynjar Gauti

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, segir í bréfi sem hann sendi nánustu vinum sínum og samstarfsmönnum í gær, og Morgunblaðið hefur undir höndum, að „atlaga“ hafi verið gerð að íslenska fjármálakerfinu, á markaði með skuldabréfatryggingar, sem var meðal þátta sem felldu kerfið.

Lánveitingar Kaupþings, meðal annars til valinna viðskiptavina vikurnar áður en bankinn féll, þar á meðal Sheik Al-Thani og Ólafs Ólafssonar, hafi verið gerðar að beiðni þýska bankans Deutsche Bank sem var stærsti lánveitandi Kaupþings. Þær voru gerðar til þess að berjast gegn atlögu að kerfinu, segir Sigurður í bréfi sínu.

Sigurður segir að neyðarlögin, sem sett voru til að verja innlenda bankastarfsemi í landinu í byrjun október, hafi „sennilega verið mestu mistökin“ í röð ákvarðana stjórnvalda sem leiddu til þess að íslenska fjármálakerfið hrundi á einni viku.

Í bréfi Sigurðar, þar sem hann fjallar um markað með skuldatryggingar, segir meðal annars: „Umræða um að verið væri að spila með þennan skuldatryggingamarkað varð almennari og ekki einungis bundin við Ísland. Okkur bárust líka ábendingar um að viðskipti með skuldatryggingar bankans væru sáralítil, viðskiptin færu fram í tölvukerfi þar sem þrír aðilar sendu kaup- og sölutilboð einu sinni á dag. Viðskipti yrðu síðan ef tilboðin mættust og við vissum til þess að álagið hafði hækkað tíu daga í röð án þess að nokkur viðskipti hefðu orðið! Þær hækkanir líkt og aðrar voru tilefni neikvæðra frétta um stöðu bankans jafnt innanlands sem utan.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Laugardaginn 25. janúar