Obama tekur við friðarverðlaunum Nóbels

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur tekið við friðarverðlaunum Nóbels í ráðhúsinu í Ósló. Obama flutti ræðu við athöfnina og útskýrði þar meðal annars þá ákvörðun sína að senda 30.000 hermenn til Afganistans og hvaða þýðingu hún hefði fyrir friðarumleitanir í heiminum.

Í ræðunni fjallaði Obama meðal annars um hættuna sem heiminum stafaði af útbreiðslu kjarnavopna og fleiri vandamálum og lagði áherslu á að stundum þyrfti að beita hervaldi til að stuðla að friði og öryggi í heiminum. Hann sagði meðal annars að sagan sýndi að Bandaríkin þyrftu að vinna með öðrum löndum í öryggismálum í stað þess að grípa til einhliða aðgerða og Atlantshafsbandalagið væri enn „ómissandi“. Markmiðið væri ekki aðeins að berjast fyrir friði, heldur einnig réttlæti, því að aðeins „réttlátur friður“ gæti verið varanlegur.

Í ræðunni sagði forsetinn einnig að Bandaríkjamenn myndu alltaf styðja þá sem berðust fyrir frelsi í löndum á borð við Íran, Búrma og Simbabve.

Fyrr í dag átti Obama stuttan fund með Haraldi Noregskonungi eftir að hafa rætt við Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs. Obama viðurkenndi á blaðamannafundi með Stoltenberg að hann hefði orðið hissa þegar tilkynnt var að hann fengi friðarverðlaun Nóbels í ár og sagði að ef til vill verðskulduðu aðrir verðlaunin meira en hann. „Markmiðið er ekki að vinna vinsældakeppni eða fá verðlaun, jafnvel þótt þau séu jafn mikils metin og friðarverðlaun Nóbels. Markmiðið er að vinna að hagsmunum Bandaríkjanna,“ sagði Obama á blaðamannafundinum.

Nokkrar hreyfingar hafa skipulagt mótmæli í Ósló í tengslum við verðlaunaathöfnina. Lögreglan er með gífurlegan öryggisviðbúnað í borginni vegna heimsóknar forsetans.

Barack Obama og eiginkona hans, Michelle, í ráðhúsinu í Ósló.
Barack Obama og eiginkona hans, Michelle, í ráðhúsinu í Ósló. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Erlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Sunnudaginn 5. janúar

Laugardaginn 4. janúar

Föstudaginn 3. janúar