Öskubylur undir Eyjafjöllum

Mynd sem Ólafur tók í dag.
Mynd sem Ólafur tók í dag. mynd/Ólafur Eggertsson

Öskubylur er nú undir Eyjafjöllum svo vart sést á milli bæja. Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, segir að vindur hafi farið í 42 metra á sekúndu í hviðum við Steina.

Ólafur segir að aska og sandur fjúki og valdi skemmdum á gróðri. Laufblöð trjáa og runna tætist af greinum og það dragi í skafla við hús. Þá smjúgi ryk inn í hús og ekki sé hægt að vera utandyra án hlífðarbúnaðar.

Ólafur telur ólíklegt að ösku- og sandfokið skemmi grasið, þótt tré og runnar fari illa. Hann er ekki með neinar skepnur úti.

„Ég segi bara sem betur fer,“ sagði Ólafur. „Ég hef dregið það verulega lengi að setja út. Það má alltaf búast við að svona gerist.“ Hann sagði það ekkert grín að ná skepnum aftur í hús ef svona nokkuð gerðist.

„Það hlýtur að vera ömurlegt fyrir skepnurnar að vera úti í svona,“ sagði Ólafur. Bæði fé, kálfar og hross hafa verið sett út á nokkrum bæjum undir Fjöllunum. Fólk hefur haldið sig innandyra í dag enda vonlaust að vera úti, að sögn Ólafs.

„Það var slæmt öskufallið sem féll í hálfgerðu logni, en nú er sandurinn eða askan á fullri ferð. Stingur mjög og smýgur alstaðar inn,“ sagði Ólafur.  Allar vélar og bílar á Þorvaldseyri voru sett inn í hús í gærkvöldi og annað í skjól. Hætt er við að eitthvað sjái á þökum sem eru áveðurs eftir sandrokið. 

Veðrið byrjaði eiginlega snemma í morgun, að sögn Ólafs. Ekki hefur komið dropi úr lofti í dag, þótt spáð hafi verið rigningu. Nú síðdegis glitti í sólina inn á milli í öskumistrinu. Ólafur sagði þegar áttin væri norðaustlæg, eins og nú, geti komið rok og rignt bæði austan og vestan við Þorvaldseyri og svæðið þar í kring án þess að þar rigni. Þegar svo dragi úr rokinu geti farið að rigna.

„Þetta er það sem búast mátti við,“ sagði Ólafur um öskufokið. Hann sagði nokkuð óvenjulegt að fá svo mikið rok og var í dag að sumri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag