Lögreglan í Lundúnum hefur staðfest, að 33 lét lífið í þremur sprengingum sem urðu í neðanjarðarlestum og lestarstöð í Lundúnum í morgun. Fjórða sprengingin varð í strætisvagni og sagðist lögreglan á blaðamannafundi ekki hafa nákvæmar upplýsingar um hve margir létu þar lífið. Sky fréttastofan hefur sagt að 7 manns hið minnsta hafi látist í þeirri sprengingu.
Þá var upplýst á blaðamannafundinum að 45 sjúklingar hafi hlotið lífshættulega áverka og gengist undir meðferð á sjúkrahúsum. Þar er um að ræða fólk sem hlaut alvarlega brjóstáverka eða brunasár eða missti útlimi. Þá hafa um 300 manns hlotið aðhlynningu á sjúkrahúsum vegna minni áverka.
Fulltrúi lögreglunnar sagði, ekki væri vitað hvort um hefði verið að ræða sjálfsmorðsárásir eða hvort sprengjur hefðu verið skildar eftir í lestarvögnum og strætisvagninum. Ekki væri vitað til að neinn hafi verið handtekinn vegna málsins. Hann sagði að engin viðvörun hefði borist áður en sprengingarnar urðu, og greinilegt að tilgangurinn með þeim var að drepa eða limlesta eins marga saklausa borgara og mögulegt væri. Þá sagði lögreglumaðurinn að enginn haft samband við lögreglu til að lýsa ábyrgð á sprengingunum á hendur sér.
Fyrsta sprengingin varð klukkan 8:51 að breskum tíma, 7:51 að íslenskum tíma, sem var að fara frá Liverpool Street lestarstöðinni á milli Moorgate og Aldgate East. Staðfest er að 7 manns létu þar lífið. Önnur sprengingin varð klukkan 8:56 í lest sem var á leið á milli King's Cross og Russell Square. Þar lést 21 maður. Þriðja sprengingin varð klukkan 9:17 við lestarstöðina í Edgware Road og er talið að þrjár lestir hafi orðið fyrir þeirri árás. Fimm manns létu lífið þar. Fjórða sprengingin varð í strætisvagni á Upper Woburn Place klukkan 9:47 að breskum tíma. Ljóst er að þar lét fólk lífið en lögreglan gat ekki veitt staðfestar upplýsingar um það.