Fjárhagsafkoma öryrkja á Íslandi lakari en í öðrum OECD-ríkjum

Stefán Ólafsson
Stefán Ólafsson mbl.is

Stefán Ólafsson prófessor við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands kynnti skýrslu sem hann hefur unnið um örorku og velferð á Íslandi á morgunverðarfundi á vegum Öryrkjabandalags Íslands.

Markmiðið með rannsókninni er að gera grein fyrir umfangi, einkennum og þróun örorku á Íslandi og að fá samanburð við önnur lönd. Skýrslan er ákaflega yfirgripsmikil og lýsir því hvernig þjóðir sinna þessum málaflokki á misjafna vegu.

Skattstofan vann úttekt á kjarastöðu öryrkja fyrir skýrsluna. Í skýrslunni er jafnframt fræðileg úttekt á fötlun og örorku og hvernig velferðarríkið skilgreinir örorku.

Stærsti hópur öryrkja í hinum vestræna heimi eru þeir sem hafa veikst eða slasast og eru á starfsaldri, þeir sem eru öryrkjar vegna meðfæddrar fötlunar eru yfirleitt innan við 10% öryrkja. Stefán segir að öryrkjar séu sérstaklega ögrandi verkefni fyrir velferðarríki nútímans og prófsteinn á gæði og umburðalyndi samfélagsins.

Samkvæmt skýrslunni fór grunnlífeyrir og tekjutrygging Tryggingastofnunar Ríkisins úr um 75% af lágmarkslaunum verkafólks árið 1995 í um 62% af sama viðmiði árið 2004.

Atvinnuþátttaka öryrkja hefur minnkað úr 42% í 38,5% á Íslandi þegar hún hefur aukist í nágrannalöndunum.

Íslenskir öryrkjar voru að jafnaði með 65% af heildartekjum skattframteljenda á aldrinum 25 – 64 ára. Íslendingar eru neðarlega í tekjustiga öryrkja í OECD ríkjunum þar sem tekjur öryrkja voru að jafnaði um 78% af meðaltekjum þeirra sem ekki eru öryrkjar. Ísland stendur nærri Bandaríkjunum og Portúgal í þessu tilviki.

Þegar borinn er saman árangur OECD-ríkjanna í að veita öryrkjum viðunandi fjárhagsafkomu og samfélagsþátttökuúrræði er útkoman lök á Íslandi. Þar er Ísland á svipuðu róli og þjóðir eins og Spánn, Portúgal og Bandaríkin eða vel undir meðaltali OECD-ríkja. Grannríkin á hinum Norðurlöndunum og sumar þjóðirnar á meginlandi Evrópu standa mun betur.

Í skýrslunni segir einnig að það sé sterkt samband milli atvinnuleysis í þjóðfélaginu og fjölgun öryrkja, þær sveiflur eru nánast alveg samstíga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert