Vill fella niður virðisaukaskatt af barnafötum

Páll Magnússon varaþingmaður Framsóknarflokksins hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að kannað verði hvort fella megi niður eða lækka virðisaukaskatt á fötum og skófatnaði fyrir börn. Segir Páll í greinargerð með tillögunni að ætla megi að verslun með þessar vörur muni aukast hér á landi í kjölfarið, umsvif verslunar aukist og hún skili meiri hagnaði.

Páll leggur til að annars vegar verði metin áhrif þess að föt og skófatnaður fyrir börn beri engan virðisaukaskatt og hins vegar að föt og skófatnaður fyrir börn beri 14% virðisaukaskatt. Lagt verði mat á fjárhagslegt tap ríkissjóðs við þessar aðgerðir en einnig ávinning fyrir barnafjölskyldur. Einnig verði lagt mat á ávinning af slíkum aðgerðum fyrir verslun innan lands og í því efni sérstaklega litið til laga um þessi mál á Bretlandseyjum.

Í greinargerð er vísað til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem eitt af markmiðunum er sagt vera að „endurskoða skattalöggjöfina með það að markmiði m.a. að draga úr jaðaráhrifum og mismunun innan skattkerfisins og stuðla þannig að aukinni skilvirkni þess.“ Þetta markmið sé ekki hægt að skilja öðru vísi en svo að ríkisstjórnin hafi talið áhrif jaðarskatta of mikil í upphafi kjörtímabilsins og að á því þyrfti að taka. Jaðaráhrif skattkerfisins bitni ekki síst á barnafólki sem iðulega þurfi í senn að koma sér upp húsnæði og greiða af námslánum og vinni af þeim sökum langan vinnudag. Með því að lækka eða afnema virðisaukaskatt af barnafatnaði væri með einfaldri aðgerð komið til móts við barnafjölskyldur í landinu.

Þá er bent á að verslunarferðir fyrir almenning hafi oft verið skipulagðar héðan til Bretlandseyja. Þar sé enginn virðisaukaskattur á fötum og skóm fyrir börn. Eðlilegt sé að kanna hvernig bresk stjórnvöld hafi framkvæmt þessi lagaákvæði og hvernig eftirliti sé háttað með söluaðilum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert