George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, varaði í dag íraska starfsbróður sinn, Saddam Hussein, við því að neita því að hann búi yfir gereyðingarvopni ella sé hann kominn á lokastig sitt sem leiðtogi Íraks. „Okkur stendur ógn af hryðjuverkastarfsemi sem þrífst í mislukkuðum ríkjum. Hún er til staðar í borgum okkar,“ sagði Bush í ávarpi sínu fyrir fund NATO í Prag í Tékklandi.
Bush sagði að Írak væri útlagaríki sem byggi yfir gereyðingarvopnum. Hann hét því að láta Íraka standa við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um að vopnaeftirlitsmenn snúi aftur til Íraks.
„Við bindum nú enda á þennan svikaleik. Saddam Hussein hefur fengið afar skamman frest til að koma með sanna lýsingu á vopnabúri sínu. Neiti hann því á ný að hann búi yfir gereyðingarvopnum mun hann hafa komist á lokastig sitt í þeirri lygi og í þetta sinn verða svik ekki liðin. Tafir munu bjóða heim hættunni á alvarlegustu afleiðingum,“ sagði Bush.