Ástþór mætti í jólasveinabúningi í dómssal

Ástþór Magnússon mætti í jólasveinabúningi í héraðsdóm í morgun.
Ástþór Magnússon mætti í jólasveinabúningi í héraðsdóm í morgun. mbl.is/Jim Smart

Ástþór Magnússon, forsvarsmaður samtakanna Friðar 2000, mætti í jólasveinabúningi með skegg og poka í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun þegar ákæra á hendur honum var þingfest. Er Ástþór ákærður fyrir hegningarlagabrot með því að hafa dreift í tölvupósti til fjölda viðtakanda tilhæfulausri viðvörun um sprengjutilræði gegn íslenskri flugvél sem var til þess fallin að vekja ótta um líf, heilbrigði og velferð manna. Brot þetta varðar allt að 3 ára fangelsi.

Þegar Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kom í dómssalinn sagði hann við Ástþór: „Ansi ertu vel búinn," og bauð honum síðan að taka af sér húfuna.

Ástþór sagði að sér hefði verið birt ákæran um hádegisbil í gær. Hann bað um frest til að ákveða hvort hann vildi fá skipaðan verjanda og til að tjá sig um sakarefnið. Fram kom hjá Helga Magnúsi Gunnarssyni, fulltrúa efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra að lögreglumenn hefðu síðan á mánudag reynt að birta Ástþóri fyrirkall og boða hann til þingfestingar en Ástþór ekki gefið færi á sér. Ástþór sagði þetta ekki rétt.

Þegar Ástþór fékk afhent málsgögn setti hann þau í jólasveinapokann. Málið verður tekið fyrir næst 13. janúar.

Guðjón St. Marteinsson sagði aðspurður að lokinni þingfestingunni að ekkert bannaði mönnum að mæta við þingfestingar íklæddir jólasveinabúningi, allra síst í desember.

Brot á hegningarlögum
Fram kemur í ákærunni að meint brot Ástþórs sé talið varða við 120 grein a í almennum hegningarlögum sem hljóðar svo: „Nú veitir maður vísvitandi rangar upplýsingar eða lætur uppi vísvitandi rangar tilkynningar, sem eru fallnar til að vekja ótta um líf, heilbrigði eða velferð manna, um atriði sem varða loftferðaöryggi eða öryggi í flughöfn varðar það sektum eða fangelsi allt að þremur árum. Sömu refsingu varðar að útbreiða þess háttar orðróm gegn betri vitund."

Þá er þess jafnframt krafist, að Ástþóri og Friði 2000 verði gert að þola upptöku á fartölvu af gerðinni Gateway og netþjóni með nafninu Cronus, sem Ástþór notaði til að senda tölvupóstinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka