Var illa haldin vegna kulda á Laugavegi

Tilkynnt var til lögreglunnar í Reykjavík seint í gærkvöldi að ölvuð kona væri liggjandi fyrir utan veitingahús á Laugavegi. Þegar lögreglu bar að var konan farinn að blána upp, átti erfitt með öndun og var mjög köld. Hún var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild og var þá talsvert af henni dregið. Þegar lögregla og sjúkralið voru að athafna sig á vettvangi bar þar að ölvaðan mann, sem hindraði störf björgunarmanna. Hann hlýddi ekki fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa vettvang. Maðurinn var handtekinn og færður í fangamóttöku þar sem varðstjóri ræddi við hann en var frjáls ferða sinna að því loknu.

Þetta kemur m.a. fram í dagbók lögreglunnar í Reykjavík eftir helgina. Þar segir að talsverður erill hafi verið hjá lögreglu um helgina en engin alvarleg slys. Þó tókst að vera með allmikið eftirlit með umferð og ökumönnum, sem yfirleitt voru með allt í góðu lagi.

Umferðin
Um helgina voru 16 ökumenn grunaðir um ölvun við akstur og 31 um of hraðan akstur.

Á föstudagsmorgun var tilkynnt um slys í Grafarholtshverfi. Þar hafði gámaflutningabíl með fullfermi verið ekið upp brekku austan við línuveg yfir Grafarholt, þegar hann staðnæmdist og við það fór bifreiðin að renna afturábak þrátt fyrir að ökumaður hemlaði. Bifreiðin rann út af veginum og lenti á hitaveitustokk alveg við steyptan stólpa sem líklega bjargaði því að ekki kom gat á rörið þó að nokkrar skemmdir hafi orðið á rörinu og klæðningunni utan um það. Talsverð fyrirhöfn var að koma bifreiðinni upp á veg. Ökumaður kenndi til eymsla í hálsi og var ekið á slysadeild.

Þá tilkynnti fyrrverandi eigandi bifreiðar að hún sé nú á planinu framan við Bónus í Holtagörðum. Tilkynnandi kvaðst hafa afskráð bifreiðina ónýta og var því hissa á að sjá hana þarna Lögreglan klippti númerin af bifreiðinni sem síðan var fjarlægð með kranabifreið.

Seint á föstudagkvöld var eftirlit með ölvunarakstri og umferð í Mosfellsbæ. Um 200 bílar voru stöðvaðir og var ástand almennt gott.

Seint á laugardagskvöld og fram á nótt var eftirlit með ölvunarakstri, réttindum ökumanna og ástandi ökutækja í Grafarvogi. Um 400 ökutæki voru stöðvuð. Enginn reyndist ölvaður en 1 ökumaður sviptur ökurétti, 3 með útrunnin ökuréttindi, eitt ökutæki boðað í skoðun og 12 ökumenn voru ekki með ökuskírteini meðferðis.

Um hádegi á sunnudag var tilkynnt um slys á Reykjanesbraut/Breiðholtsbraut. Þarna var bifreið ekið í suður er ökumaður missti stjórn á henni í hálku. Bifreiðin endaði á ljósastaur sem skemmdist. Ökumaður var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild. Hann er líklega lærbrotinn.

Annað
Á föstudagskvöld sást til manns stela veski frá starfsmanni veitingahúss í miðborginni. Maðurinn náðist og viðurkenndi hann að hafa sett veskið í póstkassa á pósthúsinu við Pósthússtræti. Starfsmaður Íslandspósts var kallaður út til að opna kassann en þar var veskið og allt í því sem þar átti að vera.

Haft var tal af ökumanni og farþega bifreiðar sem var á bensínstöð í austurborginni. Þau heimiluðu leit á sér og í bifreiðinni. Í buxnavasa mannsins fundust u.þ.b. tvö grömm af hassi og eitt gramm af amfetamíni.

Á sama stað var önnur bifreið stöðvuð vegna gruns um að þar væri verið að selja fíkniefni. Ökumaður viðurkenndi að vera með smávegis af amfetamíni. Hann og farþegi í bifreiðinni voru handtekin og flutt á stöð

Þrátt fyrir ágætis veður til útivistar voru fremur fáir á ferli í miðborginni aðfaranótt laugardags. Nokkuð fjölgaði þó er leið á nóttina. Nokkur ölvun var en þó ekki meira en búast mátti við. Í nokkrum tilfellum þurftu lögreglumenn að skilja menn að vegna slagsmála en þau mál leystust oftast án eftirmála. Fátt fólk var eftir í miðborginni þegar vakt lauk þar.

Við leit í bifreið og á farþegum í Húsahverfi skömmu eftir miðnætti, fundust áhöld til fíkniefnaneyslu og umbúðir utan af fíkniefnum.

Í annarri bifreið í Austurbænum fannst smávegis af ætluðu tóbaksblönduðu hassi ásamt hasspípu. Ökumaður heimilaði leit og framvísaði þessu. Ökumaðurinn var fluttur á stöð, fyrir varðstjóra en sleppt að viðræðum loknum.

Bifreið var stöðvuð á Bústaðabrú þar sem ökumaður heimilaði leit í bifreiðinni og fundust nokkrir lítrar af ætluðum landa sem hald var lagt á.

Síðari hluta nætur kom ökumaður á lögreglustöðina og sagðist hafa verið að aka að gatnamótum Hafnarstrætis og Lækjargötu þegar maður hafi komið að bifreiðinni og spurt sig að nafni. Ökumaðurinn kvaðst hafa sagt honum nafn sitt en í sömu andrá hafi maðurinn slegið sig í andlitið með krepptum hnefa. Síðan hafi maðurinn farið aftur fyrir bifreiðina og sparkað í hana með þeim afleiðingum að dæld kom neðan við farangurslok bifreiðarinnar. Ökumaðurinn kvaðst ekki þekkja árásarmanninn og vissi ekki um tilefni árásarinnar.

Eldur kviknaði í gámi við Arnarbakka. Slökkviliðið slökkti eldinn en þar sem gámurinn var læstur og hætt við að glæður kynnu enn að leynast í honum, þá var hann fjarlægður. Gámurinn var eitthvað tekinn að verpast og skemmast vegna hita.

Á laugardagsmorgun var tilkynnt um innbrot í verslun í Grafarvogi. Rúða var brotin í hurð og stolið geislaspilara, myndbandstæki og tölvuleikjum.

Þá var tilkynnt um innbrot í verslun í Síðumúla. Steini var kastað í glerhurð og farið inn. Tekið var sjónvarp, tölva og peningar.

Aðfaranótt sunnudags voru fremur fáir á ferli í miðborginni framan af en fólkinu fjölgaði talsvert er leið fram á nóttina og var meira af fólki þar en nóttina áður. Ölvun var talsverð og þurftu lögreglumenn að hafa nokkur afskipti af fólki af þeim sökum, en mest var um að dyraverðir á veitingastöðum í miðborginni óskuðu aðstoðar lögreglu vegna ölvaðra og æstra gesta er varð að fjarlægja af staðnum.

Lögreglumenn voru á eftirlitsferð í Vatnagörðum skömmu eftir miðnætti er þeir heyrðu háværa sprengingu og skömmu síðar sáust þrír piltar á ferð. Í ljós kom að þeir höfðu sett sprengju í ruslatunnu með þeim afleiðingum að tunnan eyðilagðist. Einn piltanna var með fölsuð skilríki. Þeir viðurkenndu að hafa sprengt tunnuna.

Brotist var inn í gróðrarstöð í Austurborginni. Farið inn um hurð og stolið ljósalampa og reynt að stela 2 öðrum en án árangurs.

Snemma á sunnudagsmorgun var tilkynnt um slagsmál í göngugötunni. Reyndist það ekki á rökum reist því þarna voru tveir drengir að gráta við öxlina hvor á öðrum en þeir voru í ástarsorg.

Þá var tilkynnt um að brotnar hefðu verið allar rúður í bifreið á bifreiðastæði við Háaleitisbraut. Ekki var sjáanlegt að neinu hefði verið stolið úr bifreiðinni.

Síðdegis á sunnudag var tilkynnt um að maður væri grunaður um þjófnað á skáktölvu úr verslun við Laugaveg og að hann væri á Hlemmi að bjóða tölvuna til sölu. Maðurinn var handtekinn, færður á aðalstöð og vistaður í fangageymslu. Skáktölvunni var skilað í verslunina.

Á sunnudagskvöld var tilkynnt um innbrot í Mýrahverfinu. Farið hafði verið inn um glugga og mikið tekið af skartgripum. Um var að ræða erfðagripi, nokkur armbandsúr og fleiri dýrmæta gripi.

Þá var tilkynnt frá veitingahúsi í Foldahverfi að þar fyrir utan væri ölvaður maður sem hefði verið vísað út af staðnum en væri að reyna inngöngu. Er lögregla kom á vettvang brást maðurinn hinn versti við og þurfti að beiti gasúða á hann. Maðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar og síðan í fangageymslu, þar sem hann var vistaður.

Þá var tilkynnt um innbrot í Þingholtunum. Spenntur var upp gluggi og stolið rafmagnsverkfærum, ljósakrónu og fleiru. Um er að ræða húsnæði sem er verið að gera upp og þar býr enginn.

Snemma á sunnudagsmorgun var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í Holtunum. Þarna var spennt upp hurð og stolið eggjum, brauði, salati og fleiru matarkyns. Þetta fannst svo allt saman haganlega fyrir komið bak við ruslagám þarna hjá eins og til stæði að sækja þýfið seinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert