Powell: Saddam fær ekki mikið lengri tíma

Colin Powell sótti World Economic Forum-fundinn í Davos í Sviss …
Colin Powell sótti World Economic Forum-fundinn í Davos í Sviss um helgina. AP

Bandarísk yfirvöld segja viðbrögð Íraka við kröfum Sameinuðu þjóðanna um að þeir afvopnist ófullnægjandi. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að Saddam Hussein Íraksforseti fengi „ekki mikið lengri tíma“ til að fara að ályktun öryggsráðs SÞ, ætli hann að forðast stríð. „Neitun Íraka við því að afvopnast ógnar en friði og öryggi á alþjóðavettvangi,“ sagði Powell eftir að yfirmenn vopnaeftirlits lögðu skýrslu sína fyrir öryggisráðið í höfuðstöðvum SÞ í New York í dag.

Powell sagði niðurstöðu vopnaeftirlitsmannanna ekki koma sér á óvart. „Fram til þessa hafa stjórnvöld í Írak virt að vettugi vilja SÞ,“ sagði Powell við fréttamenn á fundi í utanríkisráðuneytinu eftir að hann sneri heim frá World Economic Forum-fundinum í Sviss.

Embættismenn segja að árás á Írak sé örþrifaráð. Embættismenn í Hvíta húsinu búa sig undir að leggja fram ný gögn um brot Saddams gegn ályktun öryggisráðsins og ennfremur um tengsl íraskra stjórnvalda við al-Qaeda, hryðjuverkasamtök Osamas bin Ladens. Háttsettur embættismaður sagði AP-fréttastofunni að gögnin yrðu lögð fram einhvern tímann eftir fund George W. Bush Bandaríkjaforseta og Tonys Blairs, forsætisráðherra Bretlands, á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka