Ærin Dolly, fyrsta einræktaða skepnan, er dauð en henni var lógað eftir að í ljós kom að hún þjáðist af lungnasjúkdómi. Dolly fæddist í Skotlandi fyrir sex árum en hún var einræktuð á vegum Roslin stofnunarinnar í Edinborg og þótti það eitt mesta vísindaafrek síðasta áratugar. Jafnframt hófust miklar deilur um siðfræði einræktunar sem harðnað hafa frekar en hitt.
Dolly, sem nefnd var eftir söngkonunni Dolly Parton, eignaðist tvívegis afkvæmi með velskum fjallahrút sem heitir David. Árið 1999 tóku vísindamenn eftir því að frumur ærinnar sýndu hrörnunarmerki mun fyrr en eðlilegt mátti teljast. Í janúar á síðasta ári kom í ljós að hún hafði liðagigt og nú síðast kom lungnasjúkdómurinn fram.