Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði í Morgunvaktinni, nýjum morgunþætti Ríkisútvarpsins, að á fundi þeirra Hreins Loftssonar, þáverandi formanns einkavæðingarnefndar, í Lundúnum í janúar í fyrra, hafi Hreinn haft eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, að greiða þyrfti Davíð 300 milljónir króna gegn því að hann léti af andstöðu við fyrirtækið. Sagðist Davíð hafa látið lögreglu vita af þessu með óformlegum hætti.
Í morgunþættinum spurði Óðinn Jónsson fréttamaður Davíð hvort hann legði sérstaka fæð á Baugsveldið eða aðaleigendur þess. Davíð svaraði því neitandi en sagðist hafa mjög lítið álit á þeim mönnum og hefði ríkar ástæður til þess.
„Ég get sagt frá því að á þessum fundi okkar Hreins Loftssonar, fyrst þú nefnir hann, þá sagði hann mér frá því að Jón Ásgeir í Baugi hefði sagt sér, að það þyrfti að bjóða mér 300 milljónir króna gegn því að ég léti af ímyndaðri andstöðu gegn fyrirtækinu. Ég lét nú Hrein segja mér þetta tvisvar, og hann sagði mér það tvisvar, að Jón forstjóri hefði nefnt við sig að það þyrfti að bjóða mér 300 milljónir króna. Ég var nú svo þrumulostinn og Hreinn sjálfsagt sá það nú og sagðist hafa sagt við forstjórann: Þú þekkir forsætisráðherrann. Það þýðir ekkert að bera á hann fé. Þá hafði Jón þessi að sögn Hreins Loftssonar sagt: Það er enginn maður sem stenst það að fá 300 milljónir sem hvergi koma fram, hvergi er greiddur skattur af og greiddar eru inn á reikning hvar sem er í heiminum.
Það varð nú þögn eftir þetta og þá sagði ég við Hrein: Maður sem getur hugsað sér að orða það að bera fé á forsætisráðherra, á hverja er hann búinn að bera fé? Þá sagði Hreinn við mig: Já, á þessu augnabliki ákvað ég að segja af mér sem stjórnarformaður Baugs á næsta aðalfundi, sem hann og gerði. Nú segir Hreinn mér að hann telji að þessi orðaskipti hafi verið sögð í hálfkæringi af Jóni Ásgeiri en ekki meiri hálfkæringi þó en það að Hreinn sagðist hafa ákveðið að segja af sér. Það er því ekki að ástæðulausu sem ég hef lítið álit á þessum mönnum og tel þá til alls vísa," sagði Davíð. Síðar í viðtalinu kom fram að Hreinn hefði orðið stjórnarformaður Baugs á ný við breyttar aðstæður.
Davíð sagði aðspurður að ekkert hefði uppá sig að vísa þessum upplýsingum með formlegum hætti til lögreglu þótt hann hefði látið lögregluna vita af þessu með óformlega. Hann sagðist einnig hafa sofið illa nóttina á eftir, vegna þess að hann velti því fyrir sér hvort til væru menn í þjóðfélaginu með slíka peninga sem hvergi kæmu fram og gætu hugsað sér að bera þá á fólk.
Davíð ítrekaði að hann hefði ekki heyrt á Jón Gerald Sullenberger minnst fyrr en fjölmiðlar fjölluðu um hann sl. haust í tengslum við húsleit hjá Baugi og hann hefði ekki borið á góma á fundinum með Hreini, slíkt væri misskilningur hjá Hreini. Þegar Óðinn Jónsson spurði Davíð hvort Hreinn hefði ekki haft ástæðu til að óttast aðgerðir gegn Baugi vegna samtala við hann sagðist Davíð telja að þessum fréttaflutningi væri ætlað að sanna að hann hefði þekkt nafn Jóns Geralds og þar með væri komin sönnun fyrir því að hann hefði látið undirbúa innrásir í öll þessi fyrirtæki. Það væri skrýtið að ef svo væri hefði hann með átta mánaða fyrirvara varað Hrein Loftsson við. „Það stangast hvað á annað horn í öllum þessum tilfæringum en þetta blað (Fréttablaðið) er notað gagngert af hálfu þessa fólks í kosningabaráttu og það er enginn vafi á því að þeir telja sig þurfa stjórnvöld í landinu sem fari betur í vasa en ég geri."