Vatnsgæði mest í Finnlandi en Ísland í 19. sæti

Vatnsgæði eru meiri í 18 löndum en Íslandi, samkvæmt rannsókn …
Vatnsgæði eru meiri í 18 löndum en Íslandi, samkvæmt rannsókn UNESCO. mbl.is/Árni Sæberg

Vatnsgæði eru mest í Finnlandi, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á drykkjarvatni í 122 löndum á vegum mennta- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) sem birt var í París í gær. Ísland hafnaði í 19. sæti og er ferskvatnsmálum betur fyrir komið í t.d. Rússlandi, Ungverjalandi og Filippseyjum.

Tekið var tillit til aðgangs að ferskvatni, einkum grunnvatns, vatnsmeðhöndlunar og mengunarvarna við ákvörðun vatnsvísitölu einstakra landa. Fékk Finnland hæstu töluna eða 1,85, en í næstu sætum voru Kanada, Finnland, Bretland, Japan og Noregur.

Rússland var í sjöunda sæti með einkunnina 1,30 eða á undan Suður-Kóreu, Svíþjóð og Frakklandi sem fylltu tuginn. Bandaríkin höfnuðu í 12. sæti með vísitöluna 1,04. Ísland fær einkunnina 0,74 og er í 19. sæti listans.

Á óvart kom hversu Þýskaland hlaut lága einkunn en landið varð í 57. sæti en grannríkin Sviss og Austurríki komu talsvert betur út og urðu í 16. og 18. sæti.

Af gömlu austantjaldsríkjunum að Rússlandi frátöldu varð Ungverjaland í 14. sæti með vísitöluna 0,93. Næst varð Slóvenía í 24. sæti, Pólland í 24. sæti, Tékkland í 36. sæti, Lettland í 41., Eistland í 42. og Slóvakía í 44. sæti. Neðst varð Úkraína af ríkjum Austur-Evrópu eða í 95. sæti með vísitöluna mínus 0,47.

Belgía varð neðst á listanum yfir ríkin 122 með vísitöluna mínus 2,25 en næst fyrir ofan voru Jordan (119), Indland (120) og Marokkó (121). Er útkoma Belgíu rakin til lítils magns jarðvatns og lélegra gæða þess og gífurlegrar iðnaðarmengunar.

Skýrsla UNESCO um vatnsgæði í heiminum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert