Sambíóin og Háskólabíó hafa ákveðið að lækka almennt miðaverð á kvikmyndasýningar úr 800 krónum í 750 krónur, eða um 6,25%, og tekur lækkunin gildi í dag.
Í tilkynningu segir að fyrirtækin hafi náð fram hagstæðari innkaupum og þar af leiðandi náð að lækka ýmsan kostnað við reksturinn. Þessu til viðbótar hafi lækkandi gengi Bandaríkjadals að undanförnu hjálpað til við að lækka verð á þeim kvikmyndum sem keyptar eru á hinum frjálsa markaði.