Efnahags- og framfarastofnunin segir að miklar framfarir hafi orðið í efnahagsmálum Íslendinga á síðasta áratug. Tekist hafi á ótrúlega skömmum tíma að draga úr ójafnvægi og þenslu sem myndaðist við ofhitnum efnahagskerfisins og undirstriki það aukna aðlögunarhæfni hagkerfisins. Að auki hafi þetta tekist án þess að alvarlegur samdráttur kæmi í kjölfarið og nú virðist hægur bati framundan. Segir stofnunin að þennan árangur megi rekja til þeirra breytinga á efnahagsstefnu í átt til aukins stöðugleika og markaðsvæðingar á síðasta áratug.
Stofnunin segir þó að ýmis þýðingarmikil verkefni séu framundan. Á næstu árum sé útlit fyrir aukna eftirspurn vegna álvers- og virkjanaframkvæmda og tilheyrandi opinberra framkvæmda. Stjórnvöld verði að grípa til viðeigandi ráðstafana í peningamálum því annars sé hætta á ofþenslu og miklum viðskiptahalla sem nú hafi tekist að vinna bug á. Þörf sé á aðhaldssamri peningamálastefnu þegar framkvæmdirnar eru í hámarki, einkum hvað varðar opinber útgjöld.
Þá segir stofnunin að þótt ríkisútgjöld séu í mun betra horfi nú en áður sé enn rúm fyrir endurbætur til að nýta betur opinbert fjármagn. Er m.a. vísað til þess að sveitarfélög hafi fengið í hendur aukin verkefni en ekki tekist nægilega vel að standast kröfur um aukna þjónustu og launakröfur starfsmanna og ríkinu.
OECD segir að byggðastefna ríkisins sé ekki nægilega gegnsæ og afskipti ríkisins af húsnæðiskerfinu séu óhagkvæm. Hvatt er til þess að einkavæðing fjarskiptafyrirtækja verði ekki slegið lengur á frest og flýta þurfi einkavæðingu raforkukerfisins. Þá segir stofnunin að aukin markaðsvæðing landbúnaðarkerfisins bæta hag neytenda og aðhaldssöm fiskveiðistefna muni greiða fyrir bættri nýtingu fiskistofna. Slíkar aðgerðir ásamt virkri stjórnun peningamála ættu að tryggja að lífsgæði á Íslandi verði áfram mikil í hlutfalli við önnur aðildarríki OECD.