Vilja fornleifagarð en ekki hótel

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði lögðu á fundi ráðsins í dag fram bókun þar sem lagst er gegn því að hótel rísi á landnámsskálanum við Aðalstræti. Segja þeir nær að láta fornleifarnar hafa forgang vegna stórmerks sögulegs gildis þeirra og ein leið til þess væri að breyta gamla bæjarstæðinu og kirkjugarðinum í lítinn garð, Fornleifagarð Reykjavíkur, þar sem sjá megi grænar tóftir fyrsta býlisins og hringlaga kirkjugarð með upphlöðnum leiðum og hinum gamla þjóðlega svip.

Segir í bókun sjálfstæðismanna að flestir ferðamenn, sem til Reykjavíkur komi, myndu fara í fornleifagarðinn, rétt eins og menn fari í slíka garða í Aþenu og Róm. Verði reist hótel á landsnámsskálanum, þá verði ekki aftur snúið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka