Æfingar standa nú yfir hjá íslenska Evróvisjón-hópnum, en keppnin fer fram í Skontó-tónleikahöllinni í Ríga á laugardagskvöld. Blaðamaður náði tali af Birgittu Haukdal þar sem hún var að gæða sér á pitsu eftir langan dag: "Ég er orðin rosalega spennt. Við höfum æft tvisvar á stóra sviðinu, sem er alveg hreint æðislegt. Ég hef aldrei á ævi minni farið á jafn fallegt svið. Æfingarnar hafa gengið mjög vel svo við hlökkum til, frekar en að kvíða fyrir."
Birgitta segir bæði bæinn og aðdáendurna hafa komið sér á óvart, Ríga sé fallegri en hún hafi gert sér í hugarlund og ágangur aðdáenda komi henni á óvart: "Það er mjög skrýtið að hitta útlenska aðdáendur sem biðja um eiginhandaráritun og vita nákvæmlega hver maður er og eru hlaupandi á eftir manni. Ef manni fannst þetta skrýtið á Íslandi, þá er þetta stórfurðulegt hérna!" segir Birgitta og hlær.
Lagi Birgittu, "Open Your Heart", er spáð góðu gengi í keppninni en Birgitta tekur öllum slíkum fréttum með jafnaðargeði: "Ég vona bara að við stöndum okkur vel og getum gert Íslendinga stolta hvort sem við lendum í fyrsta sæti eða ekki." Með þessum orðum kvaddi Birgitta og bætti við: "Ég bið að heilsa öllum heima!"