Lokaæfing Birgittu Haukdal og félaga hennar í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva gekk mjög vel og er kraftmesta frammistaðan hingað til, segir Gísli Marteinn Baldursson, sem staddur er í Riga í Lettlandi en hann mun lýsa keppninni fyrir Sjónvarpið. Hann segir að Birgitta virðist kunna vel við sig á sviðinu. „Hún ljómar alveg á sviðinu og þau öll. Þau eru mjög samstilltur hópur á sviðinu og mér finnst sviðsframkoman mjög flott,“ segir Gísli Marteinn.
Salurinn var fullur á lokaæfingunni en hann tekur um 6.000 manns í sæti og var Birgittu fagnað. Greiða þarf aðgöngumiða að æfingunni.
Gísli Marteinn segir að öll skipulagning og undirbúningur íslenska hópsins hafi gengið vel. Keppnin hefst ekki fyrr en kl. tíu í kvöld að staðartíma (kl. sjö að íslenskum tíma). Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra hefur boðið hópnum til móttöku í dag en að sögn Gísla Marteins ætlar Birgitta og fleiri að hvíla sig fyrir kvöldið fremur en að þiggja boðið.
Hann telur raunhæft að búast við því að Ísland nái tíunda sæti í keppninni. Gísli Marteinn segir að nýjar reglur hafi verið settar fyrir keppnina og þær kveða á um að þau lönd sem lendi í tíu efstu sætunum tryggi sér áframhaldandi þátttöku. Á næsta ári verða haldnar tvær keppnir, bæði forkeppni og aðalkeppni.
Gísli Marteinn og Logi Bergmann Eiðsson greina frá gangi mála í Riga á sérstakri vefsíðu.