Háhraðanettenging með mótaldi um rafmagnsinnstungu

Um 30 þúsund heimili á höfuðborgarsvæðinu geta nú tengst háhraðanettengingu um rafmagnsinnstungu með mótaldi frá Orkuveitu Reykjavíkur. Þjónustan sem nefnist Fjöltengi gerir notendum kleift að tengjast Netinu frá 300 Kb/s til 2,5Mb/s hraða, en meðalhraði þjónustunnar er um 600-700 Kb/s.

Sendingar fara fram samhverft, sem felur í sér að sendingahraði gagna er jafn í báðar áttir. Notendur geta tengst Netinu með mótaldi sem hægt er að tengja við USB-tengi eða netkort. Lágmarksbúnaður fyrir Fjöltengi er Windows 98, 2. útgáfa eða nýrri útgáfur. Þá þurfa vélar að búa yfir Pentium 200 MHz eða stærri örgjörva og lágmarks vinnsluminni sem er um 32 MB fyrir Windows 98 og 64 MB fyrir Windows 2000, að því er fram kemur á fjöltengi.is.

Rúnar Haraldsson, verkefnisstjóri hjá Orkuveitu Reykjavíkur, segir að prófanir hafi byrjað í lok ársins 2001 en kerfið hafi verið formlega tekið í notkun síðasta haust. Hann segir að í kringum þúsund notendur séu tengdir Fjöltengi. "Við náum til um 30 þúsund heimila vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið, svo sem í Breiðholti, Grafarvogi, Árbæ, Kópavogi, Seltjarnarnesi og víðar. Til þess að heimili geti tengst Fjöltengi þurfa þau að vera tengd dreifistöð sem býr yfir sérstökum netbúnaði frá okkur," segir Rúnar og telur að netnotendur eigi eftir að taka Fjöltengi, þjónustu Orkuveitu Reykjavíkur, opnum örmum.

Nánari upplýsingar s.s hvort heimili þitt sé tengt er að finna á: fjoltengi.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert