Njósnarar komu af stað orðrómi um oftúlkun stjórnvalda á vopnaeign Íraka

Mjög heitt er í Írak núna. Bandarísku hermennirnir á myndinni …
Mjög heitt er í Írak núna. Bandarísku hermennirnir á myndinni eru koma klökum ofan í skriðdreka til kælingar. AP

Háttsettur embættismaður í ríkisstjórn Tonys Blairs, forsætisráðherra Bretlands, sagði í viðtali, sem birt var í dag, að leyniþjónustumenn sem vildu koma höggi á stjórnvöld væru ábyrgir fyrir fullyrðingum um að ríkisstjórnin hafi oftúlkað vísbendingar um að ógn stafaði af íröskum vopnum. Áhrifamikil bresk þingnefnd tilkynnti í gær, að hún myndi rannsaka hvort ríkisstjórnin hafi gefið frá sér réttar upplýsingar um vopnaeign Saddams Husseins, fyrrverandi Íraksforseta, áður en ákvörðun um stríðsrekstur var tekin.

Enn hafa engin gereyðingarvopn fundist í Írak og sætir breska ríkisstjórnin síauknum þrýstingi um að svara fullyrðingum um að ekki hafi stafað raunveruleg ógn af vopnaeign Íraka líkt og var megin röksemdafærslan fyrir stríði gegn Írak.

Kveikjan að nýjustu lotunni í deilunni virðist hafa kviknað þegar frétt var birt í BBC þar sem vitnað var í háttsettan breskan embættismann sem segir að liðsmenn leyniþjónustunnar séu óánægðir með ýmislegt í skjali um vopnaeign Íraka, s.s. fullyrðingar um að Írakar gætu gert vopn sín nothæf á 45 mínútum.

John Reid, leiðtogi Verkamannaflokksins í neðri deild breska þingsins, virðist með ummælum sínum í The Times vera að svara frétt BBC. Hann sagði menn í leyniþjónustunni hafa lýst yfir hlutum sem ekki hafi verið staðfestir. „Þetta er að verða fáránlegt. Við höfum enn ekki fundið gereyðingarvopn en við höfum heldur ekki haft hendur í hári Saddams Husseins - en þó vita allir að hann var til,“ bætti Reid við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert