Fidel Castro gleypti agnið í símaati útvarpsstöðvar

Fidel Castro, forseti Kúbu, lét stjórnendur útvarpsþáttar í Miami gabba sig upp úr skónum í símaati þar sem þeir létu líta út fyrir að starfsbróðir Castros í Venesúela, Hugo Chavez, væri á hinum endanum. Lauk samtalinu með miklum fúkyrðum Castros.

Útvarpsmennirnir klipptu saman búta úr ræðum Chavez og bjuggu þannig til samtal með hans réttu rödd. Leitaði röddin aðstoðar Castros við að hafa uppi á leyniskjölum sem horfið hefðu í heimsókn Chavez til Argentínu. Að lokum spurði einn hrekkjalómanna sem lést vera aðstoðarmaður Chavez: „Ertu sáttur við ruglið sem viðgengst á eyjunni hjá þér, morðingi?“ Eftir það tilkynntu útvarpsmennirnir Castro hverjir þeir væru og að öll Miami-borg væri að hlusta á hann. Castro bað þá aldrei þrífast og ruddi út úr sér slíkum gífuryrðum að annar þáttastjórnendanna lét hafa eftir sér síðar að ótækt væri að forseti léti slíkt út úr sér. Hugo Chavez varð fyrir sams konar grikk í janúar þar sem „Castro“ hringdi í hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka