George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur krafist þess að Charles Taylor, forseti Líberíu, yfirgefi landið, en Bandaríkjamenn íhuga að senda friðargæslulið þangað. "Við viljum skoða alla möguleika til þess að koma á friði í landinu. Hins vegar verður Taylor að yfirgefa landið," sagði Bush í samtali við blaðamenn við Hvíta húsið í dag.
Bush, sem er væntanlegur í heimsókn til ríkja í Afríku, hefur gefið í skyn að bandarísk stjórnvöld taki ákvörðun á allra næstu dögum um hvort þau sendi bandaríska hermenn eða leiði friðargæslulið í Líberíu. Bandarísk stjórnvöld hafa sent friðargæslulið þangað áður, árin 1992 og 1996. Þar hefur borgarastyrjöld staðið yfir með hléum í fjölmörg ár.
Líbería var stofnað af Afríkubúum, sem fengu frelsi eftir þrældóm í Bandaríkjunum á 19. öld.