Karl Malone mun leika með Los Angeles Lakers á næstu leiktíð

Karl Malone.
Karl Malone.

Fjölmiðlar í Los Angeles í Bandaríkjunum greina frá því í dag að hinn fertugi framherji, Karl Malone, muni skrifa undir samning við félagið á miðvikudag í næstu viku en fyrr er ekki hægt að ganga frá samkomulagi við leikmanninn. Leikstjórnandinn Gary Payton samdi við Lakers fyrr í vikunni og er allt útlit fyrir að Lakers mæti til leiks á næstu leiktíð með gríðarlega sterkt lið. Malon segir að hann sé ánægður ef eitthvað lið vilji semja við hann þar sem árin séu orðin 40 en þess ber að geta hann getur aðeins fengið um 118 millj. ísl. kr. í laun á ári hjá Lakers en á síðasta ári fékk hann um 1,5 milljarð ísl. kr. í laun frá Utah Jazz, en með því liði lék hann í 18 ár.

Malone er næst stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar frá upphafi og aðeins Kareem Abdul-Jabbar hefur skoraði fleiri stig. Þess ber að geta að Magic Johnson fyrrum leikmaður Lakers hefur gefið Malone leyfi til þess að leika með númer 32 á bakinu í leikjum Lakers en keppnistreyja Johnson var "lögð til hliðar" fyrir áratug honum til heiðurs.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert