Bróðurpartur af humri, sem stolið var frá fiskiðjunni Fiskco við Kalmarsvelli á Akranesi í fyrrinótt, fannst í gjótu í Heiðmörk í nótt. Lögreglan í Hafnarfirði fann humarinn, sem var í hvarfi frá vegi, eftir ábendingu. Þjófarnir stálu tæpu tonni af humri úr kæliklefa frá Fiskco, en ekki liggur fyrir hve mikið magn fannst í Heiðmörk.
Talið er að humarinn, sem var í einingum, sé ónýtur. Lögregla telur að einhver hafi flutt humarinn í flutningabifreið og viljað losað sig við hann í flýti með því að koma honum fyrir í gjótunni. Lögreglan í Hafnarfirði biður þá sem geta veitt upplýsingar vegna rannsóknar málsins að hafa samband í síma 525:3300.