Honum er ekki fisjað saman, honum Kristni Kristmundssyni, þegar kemur að því að fá nýstárlegar hugmyndir. Kristinn, sem býr á Egilsstöðum og rekur myndbandaleiguna Vídeófluguna, auk þess að vera líkkistusmiður Austlendingafjórðungs, hefur sett upp gos- og sælgætissjálfsala úti í sveit. Sá var til skamms tíma knúinn með sólarorku, en nýlega hefur vindurinn á Úthéraði bæst við orkugjafana.
"Ég fékk þessa hugmynd um aldamótin og það var farið að hrjá mig svo mikið að prófa þetta að ég var vakinn og sofinn með þessa hugmynd í höfðinu," segir Kristinn. "Þá var ekkert annað en að rjúka í málið. Ég hringdi í Kók og spurði hvort ég gæti fengið hjá þeim einn gamlan, lítinn sjálfsala og það var ekkert mál, hann var kominn tíu dögum seinna. Húsið smíðaði ég og það var sett á sinn stað laust fyrir verslunarmannahelgi í fyrra."
Húsið stendur á jörð Kristins, Hrolllaugsstöðum, á Hrolllaugsstaðahálsi. "Það sem er sniðugt við þetta dæmi er hvernig ég leysi raforkuþörfina," heldur Kristinn áfram. "Á Hrolllaugsstaðahálsinum eru nefnilega fleiri kílómetrar í næsta rafmagn og því fór ég út í að nota tækni sem ég hef verið að leika mér með, það er að safna orku sólar og vinds inn á geyma og breyta síðan í 220 volta spennu. Ég er með tvær 70 og 53 w sólarorkurafhlöður og bætti 100 w vindrellu við um daginn. Þetta sýnist mér ætla að duga vel til að láta sjálfsalana ganga á. Mér hafa borist skemmtilegar sögur af húsinu frá byrjun. Sumir héldu víst að þetta væri kamar, kíktu inn og komu alveg dolfallnir út aftur með kókdós í hendi. Ég er með gestabók og einhver spurði í henni hvenær nammisjálfsalinn kæmi. Ég keypti einn fullkominn sælgætissjálfsala í vor og hann vekur mikla lukku."
Egilsstöðum. Morgunblaðið.