Ástralar telja stjörnurnar upp á nýtt, finna fleiri

Ástralskir stjarnfræðingar hafa, að sögn BBC, tekið sig til og reiknað upp á nýtt hve margar stjörnur eru í þeim sólkerfum sem sýnileg eru frá jörðinni með fullkomnustu stjörnukíkjum. Kom þá í ljós að þær eru nokkru fleiri en almennt hefur verið talið hingað til.

Hófu þeir útreikninginn með því að mæla það birtumagn sem einn hluti hins sjáanlega svæðis sendir frá sér. Þannig áætluðu þeir fjölda stjarna á svæðinu. Næst margfölduðu fræðingarnir útkomuna þannig að út fengist fjöldi stjarna allan sjóndeildarhringinn frá jörðu talið. Niðurstöðuna kynntu þeir á ráðstefnu stjörnufræðinga í Sydney í Ástralíu og sammæltust um að stjörnurnar væru fleiri en öll sandkorn allra stranda og eyðimarka heimsins samanlagt. Til frekari rökstuðnings fylgdi talan 7.000.000.000.000.000.000.0000.

Fyndist nú ef til vill flestum nóg um en þó er hér aðeins um að ræða það sem koma má auga á gegnum stjörnukíki frá jörðinni. Dr. Simon Driver við Háskóla Ástralíu vill þó meina að í raun gætu stjörnurnar verið mun fleiri, jafnvel óendanlega margar, og allt eins líklegt að líf í einhverri mynd væri að finna á sumum þeirra. Ólíklegt væri hins vegar að við kæmumst nokkurn tímann í samband við þær lífverur sökum fjarlægðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert