Hjólreiðamenn eru ósáttir við að ekki séu komin úrræði fyrir þá ef hjólreiðar verða bannaðar meðfram Reykjanesbraut eftir að hún verður tvöfölduð, eins og rætt hefur verið um. Þeir telja Vatnsleysustrandarveg síst hættuminni en Reykjanesbraut og vilja fá að hjóla áfram á brautinni ef ekki verður lagður hjólastígur meðfram henni.
Í umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar og úrskurði Skipulagsstofnunar um tvöföldun Reykjanesbrautar kemur fram að hjólreiðaumferð verði bönnuð á nýrri breikkaðri Reykjanesbraut en gerðar verði ráðstafanir til þess að unnt sé að beina hjólreiðaumferð um gamla Keflavíkurveginn og Vatnsleysustrandarveg og hlutar þeirra lagfærðir. Jafnframt segir að við þessa breytingu muni hjólaleiðin frá Hafnarfirði til Njarðvíkur lengjast úr 24 kílómetrum í 27 km. Hins vegar verði hjólreiðar öruggari en áður þar sem þær verði aðskildar frá þungri umferð á Reykjanesbraut.
Sigurður M. Grétarsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna, segir að verði hjólreiðar meðfram breikkaðri Reykjanesbraut bannaðar sé ljóst að hjólreiðamenn þurfi að fá eitthvað í staðinn sem er jafngott og það sem fyrir er: "Krafa okkar í Landssamtökum hjólreiðamanna er að annað hvort verði heimilt að hjóla á Reykjanesbrautinni eftir breikkun, eða að það verði lagður malbikaður stígur sem liggi þá meðfram brautinni, en helst samt í einhverri fjarlægð."
Það er ekki búið að taka endanlega ákvörðun um að banna hjólreiðar meðfram brautinni, segir Jónas Snæbjörnsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Reykjanesi. Hann segir að það hafi verið lagt til við hlutaðeigandi yfirvöld, en sé enn til umræðu og ekki enn ljóst hvert hjólreiðamönnum verði beint.
Sigurður segir að þær hugmyndir sem hann hafi heyrt gangi annars vegar út á að nota malarveg sem er þarna fyrir, og hins vegar að nota gamla Vatnsleysustrandarveginn. "Þetta þýðir lengingu á leiðinni um 3 til 4 kílómetra, auk þess sem við teljum Vatnsleysustrandarveginn frekar hættulegan fyrir hjólreiðamenn. Hann er með mjög mikið af blindbeygjum og blindhæðum og er með einbreiðu malbiki. Það er ekið frekar hratt þar, þeir sem aka um veginn þekkja hann vel. Sumir vilja meina að það sé hættulegra að nota hann [Vatnsleysustrandarveginn] en að hjóla á 110 km/klst veginum."
Alda Jónsdóttir, formaður Íslenska fjallahjólaklúbbsins, segir umferðina á Vatnsleysustrandarveginum of hraða eins og hún er í dag. "Hann mundi alveg ganga, en það sem ég mundi helst vilja er að þeir [Vegagerðin] mundu taka sig saman með Reykjanesbæ og gera þetta að heildarsamgönguneti, þar sem ferðamenn geti til dæmis hjólað í Bláa lónið. Ég mundi helst vilja hafa það aðeins frá veginum, það er svo þreytandi að hjóla í umferðarniðnum."
Sigurður segir að það sé ekki endilega rétt ákvörðun að banna hjólreiðar meðfram brautinni. "Þó svo að hámarkshraði hækki þá verður plássið miklu meira. Ökumenn ættu að sjá hjólreiðamenn í meiri fjarlægð og ég held að hættan ætti ekki að vera meiri en hún er í dag." Hann segir að vandamál geti þó einkum verið í vatnsveðrum þegar stórir bílar keyra nálægt hjólreiðamönnum og ausa yfir þá vatni. "Eins er maður hræddur við kjölsogið af stórum bílum sem fara á mikilli ferð, það er nú kannski aðalhættan."
Alda segir það ekki ásættanlega lausn að hjóla á tvíbreiðri Reykjanesbrautinni ef leyfilegur hámarkshraði verði aukinn upp í 110 km/klst.: "Ef hjólreiðamenn eru að hjóla í hægri kanti og það keyrir rúta framúr á 110 [km/klst.] þá eru hjólamennirnir í stórhættu. Það er eitthvað sem mundi aldrei ganga."
Það koma hingað þúsundir ferðamanna með hjól og þeir verða að geta komist leiðar sinnar, segir Alda. "Rúturnar taka ekki hjól, svo það verður að finna einhverja lausn á þessu."