Fyrirhugaðar hvalveiðar Íslendinga í vísindaskyni komu til umræðu á fundi Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra með Franz Fischler, sjávarútvegs- og landbúnaðarstjóra framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), um helgina.
Árni sagði við Morgunblaðið að Fischler hefði ekki komið á framfæri neinum formlegum mótmælum frá ESB við hvalveiðunum en fréttir þess efnis birtust í sænskum fjölmiðlum í gær. Sagði hann viðræðurnar hafa farið fram á mjög vinsamlegum nótum.
Í tilkynningu frá framkvæmdastjórn ESB er minnt á að hvalveiðar og verslun með hvalaafurðir séu bannaðar innan Evrópusambandsins. Haft er eftir Fischler að hvalveiðar séu afar viðkvæmt málefni hvað varðar almenningsálit innan ESB. Allar hvalategundir séu verndaðar, samkvæmt aðallöggjöf Evrópu um verndun náttúrulegs kjörlendis og villts dýralífs. Aðildarríki ESB hafi skuldbundið sig til þess að koma á fót ströngu verndarkerfi í því skyni að tryggja hagstæðan verndarstuðul.
"Við gætum því ekki stundað hvalveiðar ef við værum í Evrópusambandinu, samkvæmt því sem fram kom á fundinum með Fischler."