Leikarinn Arnold Schwarzenegger, sem hyggur á embætti ríkisstjóra í Kaliforníu í Bandaríkjunum, hefur þurft að glíma við margskonar vanda vegna ummæla sinna frá því að hann lýsti yfir kjöri. Meðal annars hefur vakið athygli að Schwarzenegger segist hafa stutt Repbúlikanaflokkinn frá því að hann heyrði Richard Nixon, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, halda ræðu árið 1968, eða nokkrum árum áður en Nixon neyddist til þess að segja af sér embætti vegna Watergate-hneykslisins.
"Ég hlýddi á Nixon forseta tala um frjálst framtak... skattalækkanir og eflingu hersins," sagði Schwarzenegger. "Ég snéri mér því að vini mínum og sagði: ég er repúblikani. Þetta eru hugmyndir sem ég hef trú á," er haft eftir leikaranum á ananova.com. Því er haldið fram að ummælin eigi að höfða til íhaldssamra kjósenda, en þau gætu komið leikaranum illa vegna þess orðspors sem fór af Nixon.
Leikarinn hefur ekki náð eins miklu fylgi í könnunum eins og búist var við, en demókratinn Cruz Bustamante hefur fengið meira fylgi. Þá er Schwarzenegger gagnrýndur fyrir að neita að taka þátt í fyrstu kappræðunum með öðrum leiðandi frambjóðendum. Hann hefur samþykkt að taka þátt í kappræðum síðar í mánuðinum, en einungis eftir að samkomulag náðist um að hann fengi spurningar fyrirfram. Þá hefur Schwarzenegger orðið að svara fyrir ummæli sín um að hann hefði stutt aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku fyrir 28 árum.
Hann hefur ennfremur beðist afsökunar á orðum sem hann lét falla í tímaritsviðtali árið 1977 um að hann hefði tekið þátt í hópkynlífi og innbyrgt eiturlyf.