Anna Lindh lést á sjúkrahúsi í nótt

Anna Lindh kom síðast í heimsókn til Íslands í febrúar …
Anna Lindh kom síðast í heimsókn til Íslands í febrúar á þessu ári og var þessi mynd tekin þá. mbl.is/Jim Smart

Anna Lindh, utanríkisráðherra Svíþjóðar, lést á Karólínska sjúkrahúsinu í morgun af völdum innvortis blæðinga sem hún hlaut eftir að ráðist var á hana með hnífi í verslun í miðborg Stokkhólms í gær. Anna hlaut sár á bringu, handlegg og maga. Hún fór í aðgerð á sjúkrahúsinu í gær, sem stóð yfir fram eftir nóttu, en þá kom í ljós að hún hafði hlotið miklar innvortis blæðingar. Allt kom fyrir ekki og Anna Lindh lést klukkan 3:29 í nótt að sögn talsmanna sjúkrahússins. Árásarmaðurinn var enn ófundinn í morgun.

„Ég var harmi sleginn þegar ég fékk þær fréttir að Anna Lindh hefði látist af áverkunum sem hún hlaut," sagði Persson við blaðamenn í morgun. „Þetta er óskiljanlegt," sagði hann en rödd hans brast ítrekað. „Anna Lindh hefur yfirgefið okkur. Fjölskylda hennar hefur misst móður og eiginkonu. Jafnaðarmannaflokkurinn hefur misst einn sinn hæfasta stjórnmálamann. Ríkisstjórnin hefur misst hæfan stjórnmálamann og góðan starfsfélaga. Svíþjóð hefur misst andlit sitt gagnvart umheiminum."

Lögregla og talsmenn sænskra stjórnvalda höfðu áður sagt að áverkar Lindh væru mjög alvarlegir en ekki lífshættulegir. Lifur hennar skaddaðist og olli það miklum innvortis blæðingum.

Lindh var í einkaerindum í verslunarmiðstöðinni í Stokkhólmi, þar sem árásin var gerð í gær og hún var ekki í fylgd öryggisvarða. Morðið á Lindh minnir á morðið á Olof Palme, þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar 1986 sem skotinn var til bana á götuhorni í miðborg Stokkhólms þar sem hann var að koma úr kvikmyndahúsi. Hefur komið upp umræða um hvort sænskir stjórnmálamenn njóti nægilegrar verndar.

„Þjóðfélag okkar er þekkt fyrir það hvað það er opið," sagði Persson og bætti við að náin tengsl væru á milli leiðtoga landsins og þjóðarinnar. Sagði hann að Svíþjóð værir umburðarlynt og náið samfélag og morðið á Lindh væri árás á þetta opna samfélag. Persson sagði að hugur sinn væri nú hjá fjölskyldu Önnu, eiginmanni hennar og börnum.

Árásarmaðurinn, sem er sagður vera á fertugsaldri og klæddur hermannajakka, kastaði frá sér hnífnum eftir árásina og komst á brott. Margir hafa veitt lögreglu lýsingu á honum en þrátt fyrir ákafa leit í miðborginni í gær fannst maðurinn ekki. Lögregla segir að ekkert bendi til þess að ástæða árásarinnar sé af pólitískum toga, en Anna Lindh var stuðningsmaður aðildar Svía að Myntbandalagi Evrópu. Kosningar um aðild Svíþjóðar að Myntbandalaginu eru framundan, en stjórnmálafylkingar höfðu frestað kosningabaráttunni í kjölfar árásarinnar og hugðust koma saman til fundar í dag. Talsmenn sænskra stjórnvalda sögðu í morgun, að rætt hefði verið um að fresta atkvæðagreiðslunni en slíkt væri mjög flókið.

Anna Lindh ásamt Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar (t.v.).
Anna Lindh ásamt Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar (t.v.). AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka