Tveir bandarískir herlögreglumenn létu lífið og 13 særðust þegar gerð var sprengjuárás á fangelsi við Bagdad, höfuðborg Íraks. Í yfirlýsingu frá bandarísku herstjórninni segir að árásin hafi verið gerð á Abu Gharib fangelsið sem er um 20 km frá borginni, en fangelsið er undir stjórn Bandaríkjahers.
Um 500 fangar eru í fangelsinu en íraskir skæruliðar hafa oft gert árásir á það á undanförnum mánuðum. Í ágúst létu fimm íraskir fangar lífið og 67 særðust í slíkri árás.
Alls hefur 81 bandarískur hermaður látið lífið í Írak frá því bardögum þar lauk að mestu 1. maí.