Nærri 750 Japanar í beinu farþegaflugi til Íslands

Í fyrramálið lendir Boeing 767 vél Loftleiða, dótturfélags Flugleiða, á Keflavíkurflugvelli eftir fyrsta beina farþegaflugið milli Íslands og Japans. Þetta er fyrsta flugið af þremur sem skipulögð hafa verið á þessu ári. Alls eru 247 farþegar í hverri ferð, þar af 24 á viðskiptafarrými. Uppselt var í ferðirnar í lok júlí, og telja aðstandendur það mjög góðan árangur enda eru þetta fyrstu beinu farþegaflugin nokkru sinni frá Japan til Íslands. Árlega koma um 3 þúsund Japanar til Íslands.

Farið er frá Haneda flugvelli í Tokyo, dagana 27. september, 4. okt. og 11. okt. og komið til Íslands að morgni sama dags, kl. 5, eftir um 11 klukkustunda langt flug. Farið verður til baka frá Íslandi 2. október, 9. okt. og 16 okt. og dvelur því hver hópur hér á landi í 5 daga.

Fram kemur í tilkynningu frá Flugleiðum að ferðirnar séu afrakstur af markaðsstarfi Icelandair í Japan. Í mars 2001 stofnuðu Icelandair og Eyþór Eyjólfsson fyrirtæki í Japan, sem ber heitið K.K. Viking, með það markmið í huga að auka ferðamannastraum Japana til Íslands. Í fyrrasumar kom Hideo Takahashi, forstjóri Kinki Nippon Tourist sem er næst stærsta ferðskrifa Japans, til Íslands, að frumkvæði Icelandair og Eyþórs.

Flugleiðir segja að áhugi Takahashi á landi og þjóð hafi auðveldað mjög alla sölu eystra. Í lok maí hófu japanskir ferðaheildsalar umtalsverða kynningu á Íslandi og ferðum hingað. Um miðjan júní var síðan haldinn blaðamannafundur í sendiráði Íslands í Japan, þar sem þessi flug voru kynnt og vöktu þau verulega fjölmiðlaathygli. Í framhaldi seldist upp í ferðirnar á nokkrum vikum.

Þrjú slagorð fyrir þessar ferðir hafa verið: Norðurljósin, Heit böð og Ljúffengt sjávarfang. Farþegarnir eru flestir í eldri kantinum, en yfir 65% af þeim eru 55 ára eða eldri. Þessir þrír hópar munu fara í margskonar ferðir um landið. Flugleiðir segja að Japanar verji að meðaltali um 28.000 krónum á dag á ferðum sínum, sem sé mun meira en flestir aðrir ferðamenn á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka