Mótmæli gegn stríðsrekstri í Írak

Meira en 10.000 manns mótmæla stríðinu í Írak í Lundúnum …
Meira en 10.000 manns mótmæla stríðinu í Írak í Lundúnum í dag. Einnig fara samskonar mótmæli fram í öðrum löndum. AP

Rúmlega 10.000 manns hafa safnast saman og fjölgar enn, að sögn lögreglu, í miðborg Lundúna en fólkið krefst þess að erlendur her fari frá Írak. Hrópuð eru slagorð þar sem krafist er friðar og að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, segi af sér. Samskonar mótmæli fara fram í fleiri löndum eins og Grikklandi, á Krít og Kýpur, í Suður-Kóreu og Tyrklandi. Mótmælagangan í Lundúnum er fyrsta stóra mótmælagangan gegn stríðinu í Írak síðan Saddam Hussein var velt úr sessi. Hluti göngufólks í Lundúnum mótmælir stefnu ísraelskra stjórnvalda í garð Palestínumanna en Samtök múslíma á Bretlandseyjum eru á meðal skipuleggjenda göngunnar.

Í dag, nokkrum dögum fyrir landsþing Verkamannaflokksins í næstu viku, birtir Financial Times í Bretlandi niðurstöðu skoðanakönnunar, sem gerð var 11.-16. september, er sýnir að 50% aðspurðra eru hlynntir því að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, afsali sér völdum og eftirláti einhverjum öðrum þingmanni Verkamannaflokksins forsætisráðherrastólinn. Ekki var tekið fram hve stórt úrtak könnunarinnar var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert