Í morgun afhenti Þórólfur Árnason borgarstjóri Þorleifi Friðrikssyni sagnfræðingi 19 segulbandsspólur með viðtölum við fjölda frumbýlinga í Kópavogi, en Þorleifur hefur verið ötull við rannsaka sögu Kópavogs. Forsaga þessa er sú, að nú í vikunni skoraði Þorleifur á Þórólf í Morgunblaðsgrein að taka upp pennann og svara hátt í fimmtíu ára gömlu bréfi frá hreppsnefnd Kópavogshrepps, þar sem farið er fram á viðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Bréfið var skrifað þremur dögum eftir að Alþingi samþykkti lög um stofnun Kópavogskaupstaðar.
Í bréfinu, sem Finnbogi Rútur Valdimarsson oddviti undirritaði, segir:
Borgarstjórinn svaraði á sama vettvangi og sagðist telja óvarlegt að taka upp þennan þráð, sérstaklega í ljósi þess að mál hefðu væntanlega þróast á annan hátt en sameiningarsinnar sáu fyrir. En í ljósi elju þessa gamla sveitunga síns við rannsóknir á sögu Kópavogs, þá þætti honum rétt að hann fengi til rannsókna segulbandsupptökur sem hann hefði undir höndum.
Á böndunum eru viðtöl, tekin sumarið og haustið 1967, við 20 Kópavogsbúa. Þar á meðal er Þórður Þorsteinsson á Sæbóli, sem einmitt var hreppstjóri þegar áðurnefnt sameiningarbréf var skrifað. Segulböndin voru í dánarbúi Hjálmars Ólafssonar, fyrrverandi bæjarstjóra í Kópavogi, sem líklega tók sjálfur viðtölin í bæjarstjóratíð sinni. Þau voru, þar til í morgun í vörslu sonar hans, Eiríks Hjálmarssonar, sem nú er aðstoðarmaður Þórólfs Árnasonar borgarstjóra.