Afhenti segulbandsspólur með viðtölum við frumbýlinga í Kópavogi

Þórólfur Árnason afhendur Þorleifi Friðrikssyni segulbandsspólurnar í Ráðhúsinu í morgun.
Þórólfur Árnason afhendur Þorleifi Friðrikssyni segulbandsspólurnar í Ráðhúsinu í morgun.

Í morgun afhenti Þórólfur Árnason borgarstjóri Þorleifi Friðrikssyni sagnfræðingi 19 segulbandsspólur með viðtölum við fjölda frumbýlinga í Kópavogi, en Þorleifur hefur verið ötull við rannsaka sögu Kópavogs. Forsaga þessa er sú, að nú í vikunni skoraði Þorleifur á Þórólf í Morgunblaðsgrein að taka upp pennann og svara hátt í fimmtíu ára gömlu bréfi frá hreppsnefnd Kópavogshrepps, þar sem farið er fram á viðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Bréfið var skrifað þremur dögum eftir að Alþingi samþykkti lög um stofnun Kópavogskaupstaðar.

Í bréfinu, sem Finnbogi Rútur Valdimarsson oddviti undirritaði, segir:

    „Telur hreppsnefndin, að æskilegt sé, og raunar áríðandi, að slíkar viðræður, sem að ofan greinir, geti farið fram nú, áður en lögin um kaupstaðarstofnun koma til framkvæmda að verulegu leyti, með því að þær mundu að minnsta kosti leiða í ljós, hvaða kosti eða ókosti sameining Kópavogsbyggðar við Reykjavíkurbæ yrði talin hafa í för með sér fyrir viðkomandi aðila hvorn um sig og með hvaða skilyrðum hvor þeirra teldi, að slík sameining gæti átt sér stað nú eða síðar.“

Borgarstjórinn svaraði á sama vettvangi og sagðist telja óvarlegt að taka upp þennan þráð, sérstaklega í ljósi þess að mál hefðu væntanlega þróast á annan hátt en sameiningarsinnar sáu fyrir. En í ljósi elju þessa gamla sveitunga síns við rannsóknir á sögu Kópavogs, þá þætti honum rétt að hann fengi til rannsókna segulbandsupptökur sem hann hefði undir höndum.

Á böndunum eru viðtöl, tekin sumarið og haustið 1967, við 20 Kópavogsbúa. Þar á meðal er Þórður Þorsteinsson á Sæbóli, sem einmitt var hreppstjóri þegar áðurnefnt sameiningarbréf var skrifað. Segulböndin voru í dánarbúi Hjálmars Ólafssonar, fyrrverandi bæjarstjóra í Kópavogi, sem líklega tók sjálfur viðtölin í bæjarstjóratíð sinni. Þau voru, þar til í morgun í vörslu sonar hans, Eiríks Hjálmarssonar, sem nú er aðstoðarmaður Þórólfs Árnasonar borgarstjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert