Ljósavík hf. í Þorlákshöfn, sem rekur rækjuvinnsluna Póla á Siglufirði, hefur sagt upp öllu starfsfólki rækjuvinnslunnar frá næstu mánaðamótum. Verkalýðsfélagið Vaka á Siglufirði hefur sent Ljósavík hf. bréf þar sem skorað er á fyrirtækið að draga uppsagnir starfsmanna tafarlaust til baka þar sem Vaka telur að um ólögmætar hópuppsagnir sé að ræða.
Verkalýðsfélagið Vaka sendi frá sér eftirfarandi bréf til Ljóavíkur hf:
„Félaginu hefur borist tilkynning um að öllum starfsmönnum Rækjuvinnslunnar Póla á Siglufirði hafi verið sagt upp störfum frá og með næstu mánaðamótum. Hér með er skorað á fyrirtækið að draga uppsagnirnar tafarlaust til baka. Samkvæmt lögum um hópuppsagnir ber fyrirtækinu að hafa samráð við trúnaðarmann stéttarfélagsins ef fyrirtækið áformar uppsagnir af þessu tagi. Það samráð hefur ekki farið fram, einungis var tilkynnt um ákvörðun, sem þegar hafði verið tekin.
Í tilkynningu sem lesin var upp fyrir hluta starfsmanna í lok vinnudags 26. 11. sl. sagði að fyrirtækið væri í viðræðum um sölu þess og hugmyndir nýrra eigenda væru að hefja vinnslu strax eftir áramót og bjóða öllum núverandi starfsmönnum starf hjá sér. Sé eitthvað að marka þessa yfirlýsingu, ætti ekki að vera þörf á uppsögnum og því er það auk þess að vera ólögmætt, mjög óeðlilegt að standa að málum með þessum hætti.“